Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Efla fiskvinnslu í Sandgerði
Föstudagur 23. nóvember 2007 kl. 00:12

Efla fiskvinnslu í Sandgerði

Bræðurnir Kjartan Páll og Garðar Snorri Guðmundssynir í K&G fiskverkun í Reykjanesbæ hafa gert samkomulag um að taka yfir vinnslu Tros í Sandgerði frá og með 1. janúar nk.
Tros, sem hefur verið rekið í Sandgerði í um 30 ár, hefur verið í eigu Iceland Seafood síðustu ár, en að sögn Guðmundar Jónassonar, framkvæmdastjóra Tros, hyggjast þeir nú draga sig út úr framleiðslu. „Við munum vinna áfram í því öfluga starfi sem Tros hefur verið með í útflutningi og sölu og láta þá strákana, sem eru sérfræðingar í framleiðslunni, einbeita sér að því sem þeir gera best."


Hjá vinnslunni í Sandgerði vinna 29 manns, sem fá áframhaldandi vinnu eftir eigendaskiptin. Þar voru unnin um 2200 tonn á ári, en í vinnslu K&G í Reykjanesbæ starfa nú 25 manns. Fyrirtækið er sérhæft í vinnslu á flatfiski og ýsu og vinnur úr um 2500 tonnum á ári.
„Við höfum fest kaup á tækjum og húsnæðinu og ætlum að stækka við okkur þar. Eftir því sem stækkunarferlinu gengur munum við flytja vinnsluna úr Reykjanesbæ þar til að hún verður á endanum öll komin yfir," segir Garðar. „Það er búin að vera svolítil neikvæðni í þessum geira undanfarið þannig að það er gaman að geta komið með jákvæðan pól inn í þetta, ekki síst fyrir Sandgerðinga," bætir Kjartan við.

Þeir bræður eru ekki með útgerð á sínum snærum, en eru í beinum viðskiptum við Örn KE og Farsæl GK og sem og við Nesfisk. Segjast þeir munu halda áfram á þeirri línu í framtíðinni. „Við höfum skilgreint okkur sem
framleiðslufyrirtæki. Ekki sölu- eða útgerðarfyrirtæki og okkur hefur gengið
vel frá fyrsta degi. Við byrjuðum með fimm manns og höfum ekki verið að taka stór stökk fyrr en núna."

Þeir líta björtum augum fram á veginn. „Það er okkar sannfæring að það séu góðir tímar framundan í greininni, annars værum við ekki að ráðst út í þetta. Ástandið er þannig að með erfiðleikum koma einnig tækifæri, og þó að það sé ekki gott útlit núna þarf að líta til lengri tíma."

Guðmundur frá Tros handsalar samninginn við þá bræður, Kjartan og Garðar. VF-mynd/Þorgils.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024