Efast um vilja Ögmundar til að flytja Landhelgisgæsluna
Þingmaður Suðurkjördæmis segist efast um að nokkurn tíma hafi staðið til að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja og efast um heilindi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í málinu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Hugmyndum um flutning Gæslunnar hefur verið skotið á frest um óákveðinn tíma eftir að niðurstaða hagkvæmnimats, sem gert var fyrir innanríkisráðuneytið, leiddi í ljós að rekstrarkostnaður Gæslunnar gæti aukist um tæpar 700 milljónir á ári við flutningana.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks úr Suðurkjördæmi, segir í samtali við Fréttablaðið að ef flutningur verði sleginn af, sé það vanvirðing við íbúa svæðisins.
„Það eru sex mánuðir liðnir frá fundinum í Reykjanesbæ þar sem ríkisstjórnin kynnti aðgerðir fyrir Suðurnesin og þetta var helsta trompið. Ég held að það hafi aldrei staðið til af hendi Ögmundar Jónassonar að flytja Gæsluna. Mér sýnist þetta hafa verið yfirvarp hjá stjórninni til að kaupa sér tíma í áframhaldandi aðgerðarleysi“.
Í samtali við Fréttablaðið segir Ögmundur að stjórnvöld hafi unnið málið af heilindum.
„Við hefðum ekki ráðist í þessa hagkvæmnikönnun ef hún hefði verið einhver sýndarmennska,“ segir Ögmundur og leggur áherslu á að flutningur sé ekki útilokaður.
„Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er það staðreynd að flutningur mun hafa í för með sér umtalsvert aukinn rekstrarkostnað, en við erum ekki búin að slá út af borðinu þessar hugmyndir til lengri tíma litið. Heildarhagsmunir kunna að hníga í þá átt að flytja Gæsluna, en það gerum við ekki nú þegar ríkissjóður er galtómur."
Í matinu kemur fram að stærstur hluti aukins rekstrarkostnaðar liggi í nauðsynlegum breytingum á starfsmannahaldi. Vegna staðsetningar muni Gæslan þurfa að fjölga starfsfólki og einnig breyta vaktafyrirkomulagi þannig að starfsfólk verði á viðveruvakt en ekki bakvakt eins og nú er.
Þá er þess getið að breytingar á Njarðvíkurhöfn, þar sem varðskip Gæslunnar myndu vera staðsett, myndu kosta um 250 milljónir og breytingar á húsnæði við Keflavíkurflugvöll yrðu líka kostnaðarsamar.
Í matinu kemur einnig fram að ýmsir vankantar séu á núverandi aðstöðu Gæslunnar, og þó að hún sé viðunandi til skemmri tíma litið sé úrbóta þörf þegar horft er til lengri tíma.
Í samtali við Fréttablaðið sagðist Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, ekki hafa kynnt sér niðurstöðu matsins og gæti því ekki tjáð sig um efnisatriði hennar.
„En það eru mikil vonbrigði að heyra að þetta sé niðurstaðan í máli sem menn báru miklar væntingar til.“
[email protected]