Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 2. nóvember 2001 kl. 09:47

Efast um réttmæti þess að kvótasetja smábátana í aukategundum

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, greindi frá því á aðalfundi LS fyrir skömmu að hann teldi frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á veiðikerfi smábáta njóta meirihlutastuðnings á Alþingi eftir að ráðherrann kynnti hugmyndir sínar um auknar veiðiheimildir til handa smábátum í krókaaflamarkskerfinu.
Hjálmar ávarpaði aðalfundinn sem gestur og hann sagðist hafa miklar efasemdir um réttmæti þess að kvótasetja smábátana í aukategundum eins og nú ætti að gera. Sjálfsagt væri þó að hafa í huga að sjávarútvegsráðherra hefði greint frá lagalegum ástæðum þess að nauðsynlegt væri að breyta kerfinu þannig að það bryti ekki í bága við stjórnarskrána.
Hjálmar sagði það sína skoðun að fiskveiðiráðgjöfin hefði beðið hnekki. Fiskifræðingar hefðu vanmetið úthafskarfastofninn um eina milljón tonna, allir vissu um vanmatið varðandi þorskstofninn og sömuleiðis væru ýsa og steinbítur nú að veiðast utan hefðbundinna svæða. Ekkert tillit hefði verið tekið til náttúrulegra sveiflna í lífríkinu í mati Hafrannsóknastofnunar á stærð og útbreiðslu fiskstofnanna.
Hjálmar sagðist fagna því að sjávarútvegsráðherra hefði komið til móts við óskir smábátaeigenda. Enn væru málefni sóknardagabátanna þó í uppnámi og nauðsyn bæri til þess að samkomulag tækist um réttlátt gólf í dagafjölda þessara báta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024