Efast um lögmæti sölu hluta í HS
Minnihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ráðið lögfræðing til að kanna lögmæti þess hvernig staðið var að sölu á fimm prósenta hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur í sumar. Segjast bæjarfulltrúar A-listans ekki hafa séð þann samning fyrr en í síðustu viku þegar Eysteinn Jónsson, kallaði eftir gögnum um málið. Meirihlutinn segir hins vegar að gengið hafi verið frá sölunni á grundvelli viljayfirlýsingar í bæjarráði.
Enn og aftur var tekist harkalega á um málefni Hitaveitu Suðurnesja í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þegar hún kom saman til fundar í gær. Ljóst er að þessum pólitísku átökum í HS málinu er hvergi nærri lokið.
Bæjarfulltrúar minnihlutans benda á að í umræddri viljayfirlýsingu hafi komið fram að viðskipti með hluti Reykjanesbæjar í HS ættu að fara fram á genginu 7,1, sem OR keypti á. Síðan hafi í ljós komið að Geysir Green keypti á genginu 6,7 á meðan hin sveitarfélögin seldu á genginu 7,1. Mismunurinn nemi 269 milljónum króna. Í bókun minnihlutans kemur fram að sölusamningurinn hafi verið gerður án fyrirvara og hafi enn ekki verið lagður fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltri Sjálfstæðisflokks, sagði að allir samingar hefðu verið lagðir fyrir bæjarráð. Öll mál hefðu farið þar í gegn, m.a. umrædd viljayfirlýsing sem verið hafi nákvæm lýsing á því með hvaða hætti eignarhlutir hefðu átt að vera og á hvaða gengi.
Sá hlutur ríkisins sem RNB nýtti forkauprétt sinn á hafi verið seldur á öðru gengi og sá samningur lagður sérstaklega fyrir í bæjarráði þann 12. júlí, þ.e. samningurinn við Geysi Green Energy. Í viljayfirlýsingunni hafi hins vegar komið fram með hvaða hætti aðrar sölur færu fram og á hvaða gengi. Sú yfirlýsing hafi verið samþykkt í bæjarráði með þremur atkvæðum gegn tveimur og síðan staðfest í bæjarstjórn.
Böðvar sagði það er rétt að samningurinn við OR sem slíkur, „útfærslan á því sem var ákveðið bæjarráði,“ hefði ekki verið lagður fyrir enda væri hann í nákvæmu samræmi við viljayfirlýsinguna. Slíkur háttur væri oft og iðulega hafður á þegar bæjarráð tæki ákvörðun í málum, s.s. um kaup og sölur á eignum.
Fundargerð og bókanir frá fundinum í gær má nálgast á vef Reykjanesbæjar.
http://rnb.is/fundargerdir.asp?cat_id=1&mtg_id=1377418297529220
Mynd: Frá átakafundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær. VF-mynd: elg