Efast um fjárhagslegt heilbrigði GGE
Spurningar hafa vaknað um hversu traust veð Reykjanesbær hafi fyrir skuldabréfi því sem GGE gefur út vegna viðskiptanna um HS Orku. Spurt var m.a. um þetta utan úr sal á íbúafundinum á mánudaginn. A-listinn hefur sett fram efasemdir um fjárhagslegt heilbrigði GGE og eigenda þess.
A-listinn bendir á að í áliti endurskoðanda bæjarins sé sérstaklega á það bent að veðsetning hlutabréfanna í HS Orku fyrir andvirði skuldabréfsins upp á tæpa 6,3 milljarða króna sé ábótavant. Hún dugi einungis fyrir höfuðstól skuldabréfsins og leyfi ekki nein vanskil vaxta. Í álitinu komi fram að semja hefði átt um annað og hærra hlutfall veðsetningar en gert er.
Þá bendir A-listinn á að þeir sem standi að GGE séu bankar sem eru orðnir eru gjaldþrota og komnir í hendur ríkisins eða þá félög sem komin eru í greiðslustöðvun svo sem fyrirtækið Atorka sem er meðal stærstu eigenda GGE.
„Það má því reikna með erlendir aðilar standi að baki tilboði GGE. Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna gengið er beint til samninga við GGE án þess að skoða aðra kosti og hljóta spurningar að vakna ekki ósvipaðar þeim sem tengdust REI málinu á sínum tíma en þar átti m.a. að bjarga fjárhag GGE og eigendum þess með því að selja REI til einkaaðila á undirvirði,“ segir í bókun A-listans frá sögulegum bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn.
Sjálfstæðismenn í meirihlutanum segja hins vegar verðmæti veðsins tryggt eins og mögulegt sé.
„Í samningsskilmálunum er gert ráð fyrir að skuldabréf sem Reykjanesbær fær sem hlutagreiðslu fyrir hluti í HS Orku beri 3,5% grunnvexti auk verðvísitölu tengdri álverðsþróun á líftíma skuldabréfsins. Samkvæmt framvirkum verðum álverðs í maí 2009 er áætlað að skuldabréfið beri um 7% meðaltalsvexti á líftíma þess. Til tryggingar skuldabréfinu eru hlutir í HS Orku. Þeir hlutir eru varðir með handveði í hlutabréfunum og gjaldfellingarákvæði eru í bréfinu stefni eiginfjárhlutfall HS Orku undir 20%. Auk þess er heimilt að krefjast þess að arður HS Orku verði nýttur til niðurgreiðslu á höfuðstól skuldabréfins, komi til þess að hann verði greiddur út. Þannig er verðmæti veðsins tryggt eins og mögulegt er,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna frá bæjarstjórnarfundinum á þriðjudaginn þar sem samningur bæjarins og GGE var samþykktur með atkvæðum Sjálfstæðismanna gegn atkvæðum A-listans.
---
VFmynd/elg - Frá bæjarstjórnafundinum á þriðjudaginn.