Efasemdir um ný stórhýsi við Hringbraut
Hugmyndir um byggingu fjögurra fjölbýlishúsa á reitinum milli Keflavíkurvallar og Hringbrautar í Reykjanesbæ fengu dræmar viðtökur í bæjarstjórn á þriðjudag. Þar hafði félagið Stafnavík, sem er fyrirtæki í eigu knattspyrnudeildar Keflavíkur og stuðningsaðila hennar, óskað eftir að breyta deiliskipulagi sem fæli í sér fjórar íbúðabyggingar 4 til 7 hæða hárra, samtengdar með einni hæð, sem myndu ná upp Skólaveg í átt að Sundmiðstöðinni.
Á bæjarstjórnarfundinum hóf Ólafur Thordersen, A-lista, umræður og sagðist furða sig á tillögunum, sérstaklega þar sem upphaflegar tillögur gerðu ráð fyrir 3ja hæða húsum. Þarna væri slys í skipulagsmálum í uppsiglingu, ekki síst hvað við kom hugmyndum um þrengingu á Hringbraut. Tók hann að flestu leyti undir harðorða bókun Jóns Ben Einarssonar, fulltrúa A-lista í Umhverfis- og skipulagsráði. Jón lagði þar áherslu á að frekar yrði leitast við að klára uppbyggingu þeirra svæða sem nú eru í framkvæmd í bænum.
Fulltrúar minnihluta og meirihluta, sem tóku til máls á bæjarstjórnarfundi, voru samhljóma í þeirri skoðun sinni að þó ekki væri verið að útiloka neitt, yrði tekið tillit til óska íbúa í nágrenninu.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, og Böðvar Jónsson, flokksbróðir hans, sögðu báðir að ólíklegt yrði að sátt myndi nást við íbúana í því formi sem lagt var fram. Böðvar sagði m.a.: „Þessi bæjarstjórn hefur alveg sýnt það að í þeim tilfellum sem íbúar hafa lagst gegn hugmyndum og breytingum á deiliskipulagi og nýbyggingum inni í svona reitum, þá höfum við ekki verið að þröngva slíkum málum í gegn."
Við þessi ummæli sá Guðbrandur Einarsson, oddviti A-lista, sig knúinn til að hrósa meirihlutanum fyrir afstöðu sína í þessu máli. „Það er gaman að geta hrósað þessum meirihluta, en ég fæ alltof sjaldan tækifæri til þess. Hér er hlustað á íbúa og það er meirihlutanum til hróss að réttur þeirra íbúa sem fyrir eru [á umræddu svæði] sé virtur."
Jóhannes Ellertsson, stjórnarformaður Stafnvíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir að fyrirtækið hyggðist halda sínu striki í skipulagsferlinu. Tillögurnar eiga eftir að fara aftur fyrir umhverfis- og skipulagsráð og bæjarstjórn áður en þær eru sendar til afgreiðslu í skipulagsráði. „Menn vilja skoða vel umferðarmál og annað áður þetta tekur á sig endanlega mynd og það verður skoðað sérstaklega til að byrja með.“
Aðspurður um það hvort hann hafi áhyggjur af því að íbúar yrðu ósáttir sagði hann að það yrði að koma í ljós og fara í gegnum þá umræðu þegar að því kæmi. „Ef það koma svo athugasemdir frá íbúum sem menn telja ástæðu að taka tillit til þá reynum við að sníða þetta þannig að það fari vel fyrir alla aðila.“
Loftmynd/Oddgeir Karlsson – Séð yfir umrætt svæði