Eðlilegt að fráfarandi meirihluti ræði fyrst saman
Meirihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar styrkti stöðu sína í sveitarstjórnarkosningunum Reykjanesbæ sl. laugardag. Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna og fékk þrjá bæjarfulltrúa kjörna en voru með tvo áður. Samfylking og óháðir fengu einnig þrjá menn kjörna. Þá hélt Bein leið jafnframt sínum bæjarfulltrúa.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna og Umbót, nýtt framboð, fékk einn mann kjörinn.
Framboðin sem hafa myndað meirihluta tvö síðustu kjörtímabil fara úr sex bæjarfulltrúum í sjö. Þau ætla sér að ræða áframhaldandi meirihlutasamstarf.
„Eins og við sögðum fyrir kosningar þá er eðlilegt að fráfarandi meirihluti ræði fyrst saman þar sem meirihlutinn heldur. Það eru óformlegar viðræður í gangi og við verðum að sjá hvert þær leiða okkur,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknarflokks.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar, sagði ánægjulegt að meirihlutinn héldi og bætti við sig manni. „Meirihlutinn lagði verk sín í dóm og bæjarstjórann og fékk góða niðurstöður,“ sagði Friðjón.
Atkvæðin féllu þannig:
B-listi Framsóknarflokks 22,6% - 1.536 atkvæði - þrír bæjarfulltrúar
D-listi Sjálfstæðisflokks 28,1 - 1.908 atkvæði - þrír bæjarfulltrúar
M-listi Miðflokks 1,8% - 122 atkvæði
P-listi Pirata 4,2% - 275 atkvæði
S-listi Samfylkingar 22,1% - 1.500 atkvæði- þrír bæjarfulltrúar
U-listi Umbótar 8,4% - 572 atkvæði - einn bæjarfulltrúi
Y-listi Beinnar leiðar 12,8% - 870 atkvæði - einn bæjarfulltrúi
Auðir seðlar voru 139 og ógildir 27.
„Ég get ekki annað en verið ánægður. Meirihlutinn heldur og þetta er búin að vera varnarvinna. Við erum samstíga í meirihlutanum og höfum talað saman alla leiðina um að halda samstarfinu áfram,“ sagði Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar og óháðra, á kosninganótt.
„Við erum virkilega ánægð með þetta og höfum fundið það síðustu vikur að íbúar í Reykjanesbæ treysta Framsókn til að leiða hér vinnuna. Ég er virkilega ánægð með þennan stóra sigur okkar,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ. „Við gáfum út alveg stax frá upphafi að ef meirihlutinn myndi halda, þá væri það eðlilega fyrsta samtalið sem við myndum eiga.“ Halldóra Fríða segir vinnuna síðustu fjögur ár hafa skapað þennan góða árangur í kosningunum sl. laugardag. „Við höfum staðið okkur vel, erum vinnusöm og heiðarleg. Það er að skila sér núna í þessum kosningum.“
„Þó svo við séum stærst, þá vonuðumst við til þess að ná fjórða manninum inn,“ sagði Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, í viðtali við Víkurfréttir á kosninganótt. Margrét segir það hafa komið á óvart í kosningabaráttunni að hún hafi snúist um Sjálfstæðisflokkinn. „Við höfum ekki verið í meirihluta í átta ár, en einhvernveginn þá stóð þeim ógn af okkur og ég tel að við höfum verið með gríðarlega öflugan hóp.“
„Ég er sátt við það að hafa haldið inni okkar eina manni en hefði gjarnan viljað ná annarri manneskju inn. Úrslitin eru góð skilaboð til okkar í meirihlutanum,“ segir Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðar. „Það voru engin stór ágreiningsmál í kosningabaráttunni og það endaði þannig. Það segir kannski eitthvað um stöðugleika og ró í Reykjanesbæ sem fólk er að kalla eftir áfram,“ segir Valgerður.
„Það eru mikil gleðitíðindi að við höfum náð manni inn í bæjarstjórn,“ segir Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Umbótar. Margrét sat síðast í bæjarstjórn fyrir Miðflokkinn en söðlaði um og stofnaði Umbót í vor. „Þeir bæjarbúar sem kusu okkur eru greinilega ánægðir með þau verk sem ég hef verið að vinna í bæjarstjórn síðustu fjögur ár. Það var markmiðið að fella þennan meirihluta, því við erum ekki alveg jákvæð fyrir öllu því sem hann hefur verið að gera.“