Edduverðlaunahafi býður starfsfólki Símans í kósýkvöld
— langþreytt á ömurlegu netsambandi og kolrugluðu sjónvarpi
Íbúar í Garði eru langþreyttir á slæmum gæðum á sjónvarpsþjónustu í gegnum netið. Miklar umræður spunnust um helgina á samfélagsmiðlinum Garðmenn og Garðurinn. Þá hafa hátt í 200 heimili í Garði verið skráð á lista yfir hús þar sem gæði á móttöku sjónvarpsefnis í gegnum netið eru ekki boðleg.
Edduverðlaunahafinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir er búsett í Garði og hóf hún umræðuna um sjónvarpsþjónustuna. „Hvað segið þið kæru Garðbúar um gæði í sjónvarpinu ykkar? Þá meina ég truflanir ef þið horfið á tímaflakkið og VOD leiguna? Ég er að klikkast á þessu hjá mér, við erum búin að skipta þrisvar um afruglara á tveimur vikum því að þeir hjá Símanum segja að þetta hljóti að vera v/galla í afruglara en það er aldeilis ekki!,“ segir Kristín í færslu sinni á síðu Garðmanna á fésbókinni.
Miklar umræður sköpuðust um málið og ljóst að fjölmargir íbúar í Garði eru í sömu stöðu og Kristín og eru að upplifa slæm gæði í móttöku sjónvarpsefnis í gegnum netið og sérstaklega ef notast er við svokallaða VOD-þjónustu.
„Miðað við viðbrögðin hér þá er alveg ljóst að það er ekkert að okkar tækjum eins og símastarfsfólk hefur talið okkur trú um. Og það sem ég er ósátt við að borga rúmlega 20.000 á mánuði fyrir þetta ömurlega net og kolruglaða sjónvarp, þar sem við leigjum myndir á vodinu sem er svo ómögulegt að horfa á fyrir truflunum en þú situr alltaf uppi með að borga fyrir leiguna!,“ segir Edduverðlaunahafinn Kristín í umræðum um sjónvarpsgæðin og bætir svo við:
„Við á mínu heimili hringjum oft í viku og kvörtum yfir þessu og ég er alls ekki hætt. Ég mun hringja og kvarta þangað til eitthvað gerist í málinu og ég vona að þið gerið það líka öllsömul. Síðan ætla ég að bjóða þessu starfsfólki Símans (sem er alltaf að segja okkur að það sé ekkert að) heim til mín í kósýkvöld og horfa með mér á góða bíómynd af vod-inu!“
Blaðamaður Víkurfrétta setti færslu í hópinn og óskaði eftir því að íbúar sem eru að upplifa slæm gæði á útsendingu sjónvarps í gegnum netið skrái heimilisfang sitt í athugasemd við færsluna. Skömmu fyrir hádegi í dag, mánudag, höfðu tæplega 200 heimili verið skráð á þann lista.
Forseti bæjarstjórnar Garðs, Einar Jón Pálsson, sagði í færslu að hann muni leita svara við því hvers vegna gæði sjónvarpsútsendinga um netið í Sveitarfélaginu Garði séu svona slæm.