Ed Force One flýgur fyrir Iceland Express í sumar
Eins og Víkurfréttir greindu frá hér í gær var þota merkt Iron Maiden á Keflavíkurflugvelli í gær. Vélin heitir Ed Force One. Vélin er úr flugvélaflota Iceland Express og óhætt er að segja, að hún hafi vakið hvarvetna talsverða athygli, þar sem hún hefur komið. Hljómsveitin hefur að undanförnu verið á tónleikaferðalagi um heiminn á vélinni og flugstjóri um borð hefur verið söngvari hljómsveitarinnar Bruce Dickinson.
Flugvélin mun nú í sumar fljúga á flugleiðum Iceland Express og Dickinson mun fljúga henni af og til.
„Það er sannarlega gaman að þessi hljómsveit sem var stofnuð fyrir röskum 30 árum, haldið um 2000 tónleika og selt um 80 milljónir diska, hafi þessi tengsl við okkur,“ segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
„Ég er viss um, að þetta samstarf verður bara skemmtilegt og aldrei að vita nema Bruce taki lagið fyrir farþegana okkar.“
Mynd: Kjartan Guðmundur Júlíusson