Ebólu-sýktir ekki fluttir á HSS
– „Menn taka ógnina alvarlega,“ segir framkvæmdastjóri lækninga.
Töluverð undirbúningsvinna hefur átt sér stað, m.a. á vegum sóttvarnalæknis, og fundir hafa verið haldnir með viðbragðsaðilum á svæðinu. Þar hafa komið að lögregla, sjúkralið, Isavia og fleiri aðilar og menn hafa verið að stilla saman strengi. Nú þegar eru til verklagsreglur fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og einnig Flugstöð Leifs Eiríkssonar ef Ebóla kemur upp.
„Menn hafa reynt að undirbúa sig eins og hægt er,“ segir Fjölnir Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri lækninga á HSS og sóttvarnalæknir umdæmisins í samtali við Víkurfréttir.
„Það liggur fyrir að sjúklingur sem fyrirfram er vitað að er smitaður kemur ekki á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Vakni grunur um smit um borð í flugvél á leið til landsins þá fer læknir frá HSS ásamt sjúkraflutningamönnum að flugvélinni. Læknirinn metur ástandið og ef grunurinn er staðfestur verður farið með sjúklinginn inn á Landspítala í samráði við smitsjúkdómalækna á vakt þar,“ segir Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á HSS.
Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur lykilstarfsfólk á slysa- og bráðamóttöku verið undirbúið ásamt læknum HSS. Ákveðinn verkferill fer í gang og á stofnuninni er tilbúinn pakki með hlífðarbúnaði og því sem þarf til að meðhöndla sjúkling. „Starfsfólk okkar á að vita hvernig á að bregðast við og haga sér gagnvart hinum veika,“ segir Þórunn.
Ákveðnar spurningar eru lagðar fyrir sjúkling þar sem kallað er eftir því hvort hugsanlega gæti verið um þennan sjúkdóm að ræða. Ef það er metið svo er viðkomandi sendur til Reykjavíkur. Þar er tekin blóðprufa sem þarf að senda erlendis til greiningar. Halldór Jónsson, forstjóri HSS, segir í samtali við blaðið að fyrstu spurningar snúi að því hvaðan sjúklingur sé að koma og hvaða samskipti hann hefur haft og þá hvort líkur séu á því að um smit sé að ræða. Það skiptir t.a.m. máli hvort viðkomandi hafi verið í Vestur-Afríku innan þriggja vikna frá komu til landsins. Ef ekki, þá horfir málið öðruvísi við. Einkennin eru mjög lík venjulegri inflúensu til að byrja með.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er búin að fá hefðbundinn hlífðarbúnað sem á að duga við aðstæður sem hugsanlega geta komið upp. Ennþá er beðið eftir svokölluðum heilgalla sem læknir og sjúkraflutningamenn munu klæðast. Hann er væntanlegur í þessari viku. Lykilfólk frá HSS og sjúkraflutningamenn mun fá námskeið í að klæða sig í og úr gallanum. Þessir aðilar munu svo leiðbeina áfram til lögreglu og annarra viðbragðsaðila.
„Menn taka ógnina alvarlega og við höfum reynt að undirbúa okkur eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Stefnan er ekki sú að sjúklingar komi á HSS og ákvarðanir eru teknar í samráði við færustu sérfræðinga hver séu næstu skref,“ segir Fjölnir Freyr og Þórunn bætir við: „Ef svo ólíklega vill til að smitaður kemur á HSS þá erum við undir það búin“.