E-listinn hvetur Ingu til að biðjast afsökunar
Á bæjarstjórnarfundi Voga í gærkvöldi lögðu bæjarfulltrúar E-listans fram bókun þar sem þeir lýsa furðu sinni á að Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar skuli halda því fram á opinberum vettvangi að hún hafi heimildir fyrir mútugreiðslum í tengslum við lagningu raflína um sveitarfélagið.
Bókun E-listans er eftirfarandi: „Bæjarfulltrúar E-listans lýsa furðu sinni á því að Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar, sú hin sama og var í framvarðasveit við samningu siðareglna Samfylkingarinnar, sú hin sama og hafði forgöngu um að samdar yrðu siðareglur fyrir kjörna fulltrúa í Sveitarfélaginu Vogum skuli voga sér að halda því fram á opinberum vettvangi að hún hafi heimildir fyrir mútugreiðslum í tengslum við lagningu raflína um Sveitarfélagið Voga án þess að geta fært sannanir fyrir orðum sínum.
Þessar ásakanir eru Ingu Sigrúnu Atladóttur forseta bæjarstjórnar til skammar. Inga Sigrún Atladóttir forseti bæjarstjórnar hefur enn ekki beðið afsökunar á þessum ummælum sínum né heldur dregið þau undanbragðalaust til baka. Nú hvetjum við Ingu Sigrúnu Atladóttur forseta bæjarstjórnar til að nota þetta tækifæri og draga ummæli sín til baka og biðjast afsökun á þeim.“