Dýrum reiðtygjum stolið
Lögreglunni á Suðurnesjum var í gærdag tilkynnt að brotist hefði verið inn í hesthús að Mánagrund í Keflavík. Þar hafði hurð verið spennt upp með kúbeini eða sporjárni, að því er virtist, og sá eða þeir sem þar voru að verki komist inn með þeim hætti. Greipar voru látnar sópa og saknaði eigandi hesthússins tuttugu beisla, þar af þriggja mjög verðmætra, og þriggja leðurhnakka. Tveir hnakkanna voru svartir og einn brúnn að lit.
Lögregla rannsakar málið og biður þá sem kunna að búa yfir upplýsingum um það að hafa samband í síma 420-1800.