Dyravörður sýknaður
Dyravörður á skemmtistaðnum Casino í Reykjanesbæ, sem hætti rekstri fyrir nokkru, var í gær sýknaður af kæru um líkamsárás. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Árásin átti að hafa átt sér stað í júní 2006, en eftir mikinn hamagang, þar sem verið var að vísa hópi fólks út af staðnum, niður tröppur að anddyri, féll kærandi aftur fyrir sig og fékk m.a. skurð á hnakka. Kærandi var hluti af hópnum sem vísa átti á dyr.
Ekki þótti sannað fyrir dómi að ákærði hafi í raun og veru slegið kæranda eða hvort hnn hafi ýtt við honum og fleirum til að koma hópnum út. Þess vegna var ákærði sýknaður og málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.