Dýrar filmur í bílrúðum
Talsvert hefur verið um það að undanförnu að lögreglan á Suðurnesjum hafi haft afskipti af ökumönnum sem eru með dökkar filmur í fremri hliðarrúðum bifreiða sinna. Slíkt er óheimilt samkvæmt umferðarlögum og nemur sekt við því fimm þúsund krónum.
Að auki er viðkomandi bifreiðareiganda gert að færa bíl sinn til skoðunar til að hægt sé að ganga úr skugga um að lituðu filmurnar hafi verið fjarlægðar. Þessi óheimili aukabúnaður getur því kostað á annan tug þúsunda króna þegar allt er talið. Auk þessa hefur lögregla fjarlægt númerin af allmörgum bifreiðum í umdæminu sem annað hvort hafa ekki verið færðar til skoðunar á tilsettum tíma eða eru ótryggðar.
Lögregla beinir þeim tilmælum til bifreiðaeigenda að hafa ofangreind atriði í lagi.