Dýr og plöntur í útrýmingarhættu sýnd í Leifsstöð
Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, afhjúpaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærdag sýningarkassa á dýrum og plöntum í útrýmingarhættu sem óheimilt er að versla með samkvæmt CITES samningnum. Sýningunni er ætlað að fræða ferðafólk um samninginn og tegundir sem ólöglegt er, eða þarf leyfi til að flytja inn og út úr landinu.
Meðal þeirra fjölmörgu tegunda sem eru háðar leyfum eru fílar, nashyrningar, hvítabirnir, tígrisdýr og fleiri tegundir kattardýra, krókódílar, ýmsar eðlur, antilóputegundir, skjaldbökur, fjöldi skrautfugla, hvalir, styrjur, nokkrar tegundir kaktusa, orkideur og nokkrar tegundir harðviðar, svo og afurðir og full unnar vörur úr afurðum þessara tegunda. CITES reglur gilda um öll eintök tegunda óháð því hvort þau eru keypt, fengin gefins, fundin, ræktuð o.s.frv. Afurðir CITES tegundar geta t.d. verið skinn, tennur, bein, klær, fjaðrir og þess háttar.
Mynd: Jónína Bjartmarz og Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri FLE, afhjúpa kassann.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
.