Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dýpkunarframkvæmdir í Grindavíkurhöfn mánuðum á undan áætlun
Þriðjudagur 5. október 2004 kl. 14:29

Dýpkunarframkvæmdir í Grindavíkurhöfn mánuðum á undan áætlun

Dýpkunarframkvæmdir í Grindavíkurhöfn ganga framar björtustu vonum.
Áætlað var að dýpkuninni lyki þann 1. apríl á næsta ári en nú er útlit fyrir að framkvæmdum verði lokið í næsta mánuði.

Verktakafyrirtækið Hagtaki hf. hóf  framkvæmdir þann 16. júlí og má því segja að verkið hafi gengið ótrúlega hratt fyrir sig.

Sverrir Vilbergsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar, sagði í samtali við Víkurfréttir að framkvæmdin hafi reynst auðveldari en gert var ráð fyrir. „Þeir þurftu ekki að sprengja eins mikið og þeir héldu vestanmegin. Botninn var greinilega öðruvísi en þeir héldu og þeir náðu að rífa þetta upp.“

Sverrir bætir því þó við að svæði út af bryggjunni hafi þó reynst erfiðara viðfangs en gert var ráð fyrir. „Það var miklu þykkara en haldið var þannig að verktakarnir töfðust svolítið þar.“

Ástæðan fyrir þessum miklu umbótum var sú að höfnin var ekki nógu hentug fyrir stærri skipin sem rista gjarnan mjög djúpt þegar þau koma vel lestuð að landi. „Nú verður betra snúningsrými fyrir skipin, en það var oft erfitt að eiga við þau sérstaklega í slæmu veðri. Þau taka svo vind og er erfitt að stöðva þau.“

Öll aðstaða fyrir aðkomu stærri skipa verður stórbætt og á í framhaldinu að bæta um betur og endurbyggja loðnulöndunarbryggjuna og útskipunarbryggjuna.

VF-myndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024