Dvalartími gesta hefur lengst
Þjónusta gististaða á Suðurnesjum einkennist á því að þjónusta flugfarþega. Þuríður Halldóra Aradóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurnesja, segir að algengt sé að gestir gisti á svæðinu fyrstu nóttina við komuna til landsins og þá síðustu áður en haldið sé heim á leið.
„Á síðustu árum höfum við reynt að vinna í því að fá gesti okkar til að dvelja aðeins lengur, að þeir bæti við aukanótt. Það hefur tekist nokkuð vel. Árið 2012 var meðal dvalartími gesta 1,46 nótt en árið 2014 var það komið upp í 1,91. Það sem af er þessu ári er það komið í 2,24 nótt.“
Ef gesturinn dvelur lengur en eina nótt í gistingu eru meiri líkur á að hann njóti þess sem Reykjanesskaginn hefur upp á að bjóða. „Í þessu skiptir þjónusta og gestrisni gististaða miklu máli og geta þeir sem ötullega hafa unnið að því að fá gesti til að dvelja lengur, klappað sér á bakið fyrir vel unnin störf að þessu leyti. En við megum ekki sofna á verðinum og við verðum að halda ótrauð áfram,“ segir Þuríður og leggur áherslu á að samvinna og samstaða í uppbyggingu og kynningu á svæðinu geti skipt sköpum í ferðaþjónustu.
„Því þurfa ferðaþjónustuaðilar að gefa sér tíma til að kynna sér það sem er í gangi á svæðinu og ekki síður taka þátt í því góða uppbyggingarstarfi sem er í gangi og láta sér málið varða.“