Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum vantar 74,7 milljónir króna
Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum (DS) fara fram á fjárframlög frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum samtals að upphæð 74,7 milljónir. Vegna rekstrarhalla 35,7 milljónir, 20,2 milljónir vegna afborgunar lána og endurbætur á Hlévangi vegna pípulagna að upphæð 17,0 miljónir og 2,0 milljónir vegna Garðvangs.
Daggjöld fara lækkandi og ekki er að vænta aukafjárveitinga á næsta ári. Þá eru nauðsynlegar framkvæmdir við endurbætur á pípulögn á Hlévangi upp á 17,0 milljónir.
Sveitarfélögin sem standa að DS verði í sameiningu að finna lausn á fjárhagsvanda DS. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar DS.
Bæjarstjórn Garðs lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þess rekstarumhverfis sem rekstur dvalarheimilanna býr við. Niðurskurður er komin svo langt að ekki verður lengra gengið í þeim efnum. Bæjarstjórn Garðs tekur undir með stjórn DS um að fjármagni verði varið í stefnumótun hjúkrunarheimilanna þar sem tekið verði tillit til úttektar Landlæknisembættisins á starfseminni vorið 2011. Það er mikilvægt að sem fyrst verði starfsemi DS mörkuð stefna og endurbætur og lagfæringar sem lengi hafa staðið til á Garðvangi svo húsnæðið standist þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til þess, til hagsbóta fyrir íbúa og starfsmenn. Bæjarstjórn Garðs er tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu.