Dúxaði í FS á tveimur og hálfu ári
Birna Helga Jóhannesdóttir, 18 ára stúlka úr Keflavík, útskrifaðist með hæstu einkunn úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í útskrift skólans sem fram fór í síðustu viku. Meðaleinkunn hennar er 9,61 sem er frábær árangur og lauk hún einnig námi við skólann á tveimur og hálfu ári. Birna Helga hlaut 35 tíur í námi sínu af um 50 áföngum sem hún lauk við skólann. Öðrum áföngum lauk hún með einkunninni níu. Birna segist í viðtali við Víkurfréttir vera mjög sátt með árangur sinn í skólanum.
„Ég er auðvitað mjög sátt og get verið stolt af þessari einkunn. Ég hef alltaf átt mjög auðvelt með nám og hef mikinn metnað,“ segir Birna Helga. „Ef ég fæ ekki háa einkunn þá verð ég mjög svekkt út í sjálfa mig og það hefur haldið mér við efnið. Ég er þrátt fyrir það ekki að læra meira en næsti maður við hliðina á mér. Ég legg samt alltaf mikið á mig til að standa mig vel.“
Stóð ekki til að útskrifast svona fljótt
Það er ekki á hvers manns færi að ljúka framhaldsskólanámi á tveimur og hálfu ári og hvað þá að ljúka námi með hæstu einkunn. Birna viðurkennir að hún hafi ekki áformað að ljúka námi á svo skömmum tíma – námið hafi einfaldlega gengið betur en hún átti von á.
„Ég tók 29 einingar á síðustu vorönn og eftir þá önn þá gat ég klárað í haust,“ segir Birna Helga. „Það hjálpaði líka að áður en ég hóf nám í FS þá var ég búin með tvo áfanga í stærðfræði og tvo í ensku. Það var ekki planið að klára skólann svona fljótt þegar ég byrjaði en eftir að ég ræddi við Ægi Karl (Ægisson), áfangastjóra, þá sá ég að ég gæti náð að klára skólann á tveimur og hálfu ári. Það er boðið upp á hraðferð í FS þar sem nemendur bæta við sig aukaáfanga á hverri önn. Ég gerði það og náði að ljúka náminu fyrr.“
Fékk tíu í öllum stærðfræðiáföngunum
Birna Helga fékk fjölda verðlauna við útskriftina í síðustu viku. Hún fékk alls tíu verðlaun, þar af þrenn fyrir stærðfræði sem er hennar eftirlætis námsgrein. „Ég hef alltaf verið best í stærðfræði. Ég tók tíu áfanga í stærðfræði og fékk tíu í einkunn í þeim öllum. Ég á mjög auðvelt með að læra stærðfræði – sú grein er mér eðlislæg. Ég hef einnig mjög gaman af tungumálum og viðskiptafræði og hefur gengið vel.“ Birna hlaut verðlaun fyrir árangur í viðskipta- og hagfræðigreinum, íslensku, spænsku, dönsku, ensku og stærðfræði.
Fer í lögfræði í haust
Birna Helga er nú þegar búin að ákveða hvað hún ætlar að gera í framtíðinni. Hún ætlar að vinna næstu mánuði en næsta haust mun hún hefja nám við Háskóla Íslands. „Ég stefni að því að fara í lögfræði við Háskóla Íslands næsta haust. Ég held að sú grein eigi vel við mig. Það gæti auðvitað breyst og ef ég skipti um skoðun þá fer ég eflaust í viðskipta- eða hagfræði,“ segir Birna Helga en hvað gerir hún í frítíma sínum frá námsbókunum?
„Ég eyði frítímanum með vinum og kærastanum mínum. Ég hef líka alltaf æft íþróttir, bæði dans og fótbolta og er dugleg að fara í ræktina. Ég fer rosalega mikið í bíó og hef mjög gaman af því að horfa á bíómyndir,“ segir hin bráðklára Birna Helga að lokum.