Dúx Háskólans á Akureyri frá Reykjanesbæ
Það var sannkölluð háskólahátíð í Kirkjulundi kl 13:00. En þá útskrifuðust nemar frá Háskólanum á Akureyri. Nemendurnir lögðu stund á fjarnám frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS).
Bylgja Dís Gunnarsdóttir, sópran söng og Lára Rafnsdóttir spilaði undir á píanó. Guðjónína Sæmundsdóttir forstöðumaður MSS óskaði hinum nýútskrifuðu nemum til hamingju en sagðist jafnframt sjá eftir hópnum.
Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, sagði það merki um dugnað og getu að dúx skólans væri héðan og hefði stundað fjarnám. Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ, var dúx skólans að þessu sinni.
Berglind Kristinsdóttir sem útskrifaðist með B.A. - gráðu í viðskiptafræði sagði í samtali við Víkurfréttir að námið hefði gengið vel. Þó hafi verið þörf á að sameina vinnu, heimili og skóla. „Stuðningur skólafélaga var mér mjög mikilvægur og það var mikið hjálpast að,“ sagði Berglind um skólafélaga sína.
„Námið kom lítið niður á vinnunni þar sem kennt var á kvöldin og um helgar. Ég tók mér einungis frí þegar prófin voru,“ sagði Berglind um hvernig gengið hefði að samræma vinnu og skóla. „Það er ótrúlegt að vera búin að klára námið og ef ekki væri fyrir fjarnámið hefði ég aldrei komist í nám. Það versta við að vera útskrifuð er nú finnst mér ég vera að svíkjast undan þegar ég er ekki að lesa í einhverjum bókum!“ sagði Berglind um gagnsemi fjarnáms, útskriftina og bætti við í lokin að hún myndi mæla með þessari leið til náms.
Vf-mynd/Margrét