Dúu komið af hafsbotni á 30 tímum
Gamalt fiskiskip, Dúa II, sökk í Grindavíkurhöfn á dögunum þar sem hún lá utan á nöfnu sinni, Dúu RE 404, eins og hún hefur gert undanfarin ár og það í hálfgerðu reiðuleysi. Kafarar frá Köfunarþjónustu Sigurðar fóru niður að bátnum og lokuðu fyrir op til að koma í veg fyrir mengun og einnig var sett mengunargirðing umhverfis hann.
Þá var hafist handa við að koma bátnum aftur upp af hafsbotni og tókst starfsmönnum Köfunarþjónustu Sigurðar það verk á 30 klukkustundum, enda algjörir naglar, svo vitnað sé til Sigurðar Stefánssonar kafara.
Dúa II var smíðuð úr eik í Halmstad í Svíþjóð árið 1954 og mældist 39 brúttólestir að stærð.
Báturinn hét upphaflega Sigurfari SF 58 frá Hornafirði, síðar Farsæll SH 30, Örninn KE 127 og svo Kári GK 146, nafn sem hann bar í tæp 40 ár. Vorið 2005 var hann seldur til Dalvíkur þar sem hann fékk nafnið Aggi Afi EA 399. Síðar hét hann Aníta KE 399 og svo Dúa II RE 400.
Jón Steinar Sæmundsson, ljósmyndari Víkurfrétta í Grindavík, tók meðfylgjandi myndir af björgunaraðgerðum.