Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dúkur í stað flísa í sundlaugina
Frá framkvæmdum við Sundmiðstöðina í Keflavík. Myndin tekin fyrr í mánuðinum. Ljósmynd: Ragnar Örn Pétursson.
Þriðjudagur 23. september 2014 kl. 09:16

Dúkur í stað flísa í sundlaugina

– heitir pottar og gufubað opna eftir helgina

Framkvæmdir við Sundmiðstöðina í Keflavík eru í fullum gangi. Þær taka því miður mun lengri tíma en áætlað var, segir Ragnar Örn Pétursson, íþróttafulltrúi Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir.

„Ákveðið var að skipta út öllum tækjum við útilaugina og heitu pottana. Það var tími kominn á þær framkvæmdir en 24 ár eru síðan laugin opnaði. Verið er að vinna við að skipta um allar lagnir, klór- og hitastýringakerfi, sandsíur, jöfnunartanka og fleira“.

Ragnar Örn vonast til að heitu pottarnir gætu opnað fyrr en sundlaugin en ýmislegt, m.a. leki, hefur tafið það verk.

„Þá kom í ljós þegar sundlaugin var tæmd að flísar á botni laugarinnar voru að mestu leyti ónýtar. Ákveðið hefur verið að setja dúk á botn hennar í staðinn fyrir flísar bæði vegna  minni kostnaðar og styttri framkvæmdatíma,“ segir Ragnar Örn.

Innilaugin og vatnsleikjagarðurinn er opin fyrir almenning og þá hafa þessar framkvæmdir ekki haft áhrif á sundkennslu og sundæfingar.

„Við vonumst til að geta opnað fyrir pottana og gufubaðið upp úr næstu helgi og síðan gerum við ráð fyrir að laugin verði tilbúin eftir 3 vikur,“ segir Ragnar Örn Pétursson, íþróttafulltrúi Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024