Drengurinn með alvarlega höfuðáverka – enn leitað að dökkum skutbíl
Ungi drengurinn sem varð fyrir bifreið á Vesturgötu í Keflavík nú síðdegis er alvarlega slasaður á sjúkrahúsi í Reykjavík. Drengurinn, sem er 4 ára gamall, hlaut alvarlega höfuðáverka.
Drengurinn var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur og var hæsti viðbúnaður vegna slyssins. Þannig ók lögreglubíll á undan sjúkrabílnum og lögreglubílar voru staðsettir á öllum gatnamótum frá Hafnarfirði og að Landsspítala til að greiða fyrir umferð en slysið varð á miklum álagstíma í umferðinni.
Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á þeim sem ók á barnið. Lýst er eftir dökkri skutbifreið í tengslum við málið. Þeim möguleika er haldið opnum að barnið hafi hlaupið í hlið bílsins og ökumaður hans ekki orðið var við slysið og því ekið á brott af vettvangi. Veður á slysstað er ekki gott en mikið rok er nú í Keflavík. Slysið var tilkynnt rétt rúmlega 5 síðdegis. Allir þeir sem voru á ferð á svæðinu á þeim tíma og gætu gefið upplýsingar eru hvattir til að setja sig í samband við lögregluna í síma 112.
Nú eru tveir sjúkrabílar í neyðarakstri á leið til Reykjavíkur. Annar flytur barn með sprunginn botnlanga en hinn flytur sjúkling með miklar blæðingar í handlegg sem ekki tókst að stöðva á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Vel á annan tug útkalla hefur verið í dag hjá sjúkrabílum Brunavarna Suðurnesja og annríki mikið á slökkvistöðinni að sögn Sigmundar Eyþórssonar slökkviliðsstjóra.
Myndir: Frá vettvangi slyssins nú undir kvöld. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson