Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Drengur bitinn í andlitið í Innri-Njarðvík - „Ástandið óþolandi,“ segir faðir drengsins
Föstudagur 5. ágúst 2011 kl. 12:25

Drengur bitinn í andlitið í Innri-Njarðvík - „Ástandið óþolandi,“ segir faðir drengsins

„Lausaganga hunda í Innri-Njarðvík er óþolandi“, segir íbúi á svæðinu sem lenti í því að 4 ára sonur hans var bitinn fyrir tæplega mánuði síðan í andlitið af Border Collie hundi en ekkert hefur verið aðhafst í málinu síðan kæra var lögð fram þann 11. júlí og málið situr í kefinu. Hundurinn er enn hjá eiganda sínum og samkvæmt upplýsingum hefur ekkert verið aðhafst í hans málum.

Drengurinn er með þrjú varanleg ör í andliti eftir árásina og minnstu mátti muna að hann hlytu skaða á auga því hann var bitinn í augnlok og segir faðir drengsins að mesta mildi sé að ekki hafi farið verr. Hann segir hunda ganga lausa um allt hverfið og ekki bara hafi þessar árásir gert fólki skelk í bringu, heldur sé úrgangur úr hundunum á víð og dreif og lítið um marga þeirra hirt. „Fólk virðist halda að það búi í sveit,“ segir maðurinn.

Ekki náðist í lögreglu í vinnslu fréttarinnar en samkvæmt heimildum sem Víkurfréttir hafa þá liggja ekki enn fyrir samþykktir frá Reykjanesbæ um hvað skuli aðhafast í málum sem þessum en lögreglan bíður víst svara frá bæjaryfirvöldum. Ljóst er að um alvarlegt ástand er að ræða og lausnir verða að finnast sem allra fyrst.

Önnur mál af þessu tagi hafa komið upp í sumar og nú síðast í gær þegar 12 ára stúlka var bitin af Rottweiler hundi í Innri-Njarðvík og umtalað var þegar 17 hundar réðust á konu á Miðnesheiði í byrjun sumars. Þeir hundar voru svæfðir en óljóst er jafnan hvernig bregðast skuli við málum sem þessum og oftar en ekki eru þetta umdeild mál.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024