Draupnir kominn til hafnar í Grindavík
Komið var með mótorbátinn Draupni til hafnar í Grindavík um klukkan 18:00 í kvöld, en báturinn Árni í Tungu tók til við að draga Draupni til hafnar eftir að björgunarbáturinn Oddur V. Gíslason þurfti að sinna öðru útkalli. Björgunarsveitarmenn sem Víkurfréttir ræddu við þegar komið var með bátinn til hafnar sögðu að það væri nánast kraftaverk að báturinn væri ekki sokkinn. Mjög rólega þurfti að fara með bátinn og var siglingarhraðinn um hálf sjómíla.