Draumasveitarfélagið er ekki á Suðurnesjum
Reykjanesbær og Grindavíkurbær skora ekki hátt í útreikningum VÍSBENDINGAR um draumasveitarfélagið 2009. Af þeim 38 sveitarfélögum sem einkunnargjöfin nær til er Grindavíkurbær í næst neðsta sæti og fellur um tíu sæti frá fyrra ári með 2,9 í einkunn. Reykjanesbær er í þriðja neðsta sæti með 2,9 í einkunn og fellur um tólf sæti milli ára.
Efst á listanum yfir draumasveitarfélagið er Seltjarnarnes með 7,8 í einkunn.
Sveitarfélagið Garður skorar hæst af sveitarfélögunum á Suðurnesjum, er í 19. sæti listans með 4,7 í einkunn og fellur aðeins um eitt sæti milli ára.
Sveitarfélagið Vogar er í 23. sæti nú en var í því fimmtánda á síðasta ári og fær 4,6 í einkunn. Sandgerðisbær fellur í 29. sæti úr því þrettánda og fær 4,3 í einkunn.
Titilinn Draumasveitarfélagið fær það sveitarfélag sem er best statt samkvæmt nokkrum mælikvörðum. Skattheimtan þarf að vera sem minnst. Sveitarfélög með útsvarshlutfallið 12,35 fá 10 og sveitarfélög með hlutfallið 13,03% fá núll.
Breytingar á fjölda íbúa verða að vera hóflegar. Í einkunnargjöfinni er einnig litið er til afkomu sem hlutfall af tekjum, hlutfall skulda af tekjum og veltufjárhlutfalls.
Í fréttabréfi Vísbendingar segir að forráðamenn sumra sveitarfélaga hafi haldið því fram að mælikvarðar af þessu tagi gefi ekki rétta mynd af því hvar best sé að búa. Horfa verði á þjónustuna sem íbúar fá.
„Því er til að svara að til frambúðar er ekki hægt að veita góða þjónustu nema fjármálin séu í lagi. Bæjarfélag sem heldur uppi stofnunum sínum með auknum lántökum ár eftir ár hlýtur að lenda í vandræðum á endanum. Dæmi eru um það í einhverjum bæjarfélögum nú þegar, að lánalindin sé þornuð upp og þau hafa lent í greiðsluerfiðleikum,“ segir í Vísbendingu.