Draugaskip rak á Garðskagafjöru
Draugaskip rak upp í fjöru á Garðskaga í nótt. Starfsmenn byggðasafnsins á Garðskaga urðu varir við skipið í morgunsárið þegar þeir mættu til vinnu og tilkynnti til lögreglu, sem fór um borð. Eftirgrennslan hennar leiddi í ljós að skipið er mannslaust en það ber þess greinilega merki að hafa velkst lengi í hafi.
Að sögn lögreglu er ekki ljóst um hvaða skip er að ræða þar sem einkennisstafir þess eru orðnir máðir og illgreinanlegir. Menn frá Siglingamálastofnun eru komnir á staðinn og rannsaka skipið. Sigursteinn Eyjólfsson, sérfræðingur hjá stofnuninni, segir að rannsókn þeirra beinist að því hvort um sé að ræða skip sem sökkva átti út á Reykjaneshrygg fyrir mörgum árum á þeim tíma sem úreltum skipum var sökkt í hafið. Það var aflagt með síðari tíma lagasetningu sem kvað á um að úrelt skip skyldu rifin í brotajárn.
Í febrúar 1988 var Jón Gunnlaugs GK á leið út á Reykjaneshrygg með Kristbjörgu VE í togi þar sem henni skyldi sökkt. Á miðri leið skall á vonskuveður og við það slitnaði dráttartaugin. Skipsverjar misstu sjónar á Kristbjörgu sem hvarf út í sortann. Víðtæk leit var gerð að skipinu næstu daga. Hún bar engan árangur og að lokum gengu menn út frá því það skipið hefði sokkið.
Sem fyrr segir beinist rannsókn Siglingamálastofnunar að því hvort skipið sem rak upp á Garðskagafjörur í nótt sé umrætt skip. Rannsókn hefur leitt í ljós að engin olía er í skipinu, sem rennir enn frekar stoðum undir þá kenningu.
Mynd: Garðskagi í morgun - Skipið í fjörunni er heldur óhrjárlegt að sjá enda greinilega búið að velkjast lengi um í hafi. VF-mynd: elg.