Draugabær á Miðnesheiði
-búið að leggja Rockville í rúst.
Skemmdarverk hafa verið unnin á gömlu ratsjárstöðinni í Rockville á Miðnesheiði, en meðferðarheimilið Byrgið flutti af svæðinu í byrjun sumars. Víða hafa rúður verið brotnar og skemmdir unnar á byggingum á svæðinu. Inn í byggingum á svæðinu hafa verið unnin mikil skemmdarverk og glerbrot eru mjög víða á gólfum. Hurðir á byggingum standa víðast hvar opnar og má sjá að þarna hafa einhverjir farið ránshendi um staðinn.
Í lok mars árið 1999 voru samningar undirritaðir um að meðferðarheimilið Byrgið fengi afnot af byggingum í Rockville og skömmu síðar hófst uppbygging staðarins. Í september sama ár fluttu fyrstu íbúarnir inn í Byrgið, en að sögn Guðmundar Jónssonar forstöðumanns Byrgisins nam kostnaður við uppbyggingu Rockville um 100 milljónum króna.
Greint var frá því í fjölmiðlum í sumar að Utanríkisráðuneytið vilji að byggingar á svæðinu verði rifnar og svæðið hreinsað áður en Varnarliðið skili svæðinu til íslenskra stjórnvalda.
Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins sagði í samtali við Víkurfréttir að viðræður væru í gangi á milli Varnarliðsins og Utanríkisráðuneytisins um hvað verði gert við svæðið, en Friðþór vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.