Dragúldið stórhveli rak á land við Hafnir
Stórhveli er rekið á land við Hafnir í Reykjanesbæ. Hvalsins varð vart í gær í fjörunni neðan við byggðina við Hafnagötu. Núna er hræið í flæðarmálinu neðan við fiskeldisstöðina við Kirkjuvog.
Víkurfréttum er ekki kunnugt um tegund hvalsins en hann er mjög stór og örugglega fimmtán til 20 metra langur.
Ljóst er að dýrið hefur verið dautt í talsverðan tíma og af því leggur vonda lykt. Það virðist vera dragúldið. Það er einmitt lyktin sem íbúar í nágrenninu hafa áhyggjur af núna þegar aðventan gengur í garð. Illa lyktandi hvalur kemur a.m.k. ekki með jólailm í bæinn.
Myndirnar með fréttinni tók Hilmar Bragi með flygildi fyrr í dag.