Draga tilboð sín tilbaka í sérleyfisakstur
Fyrirtækin Hópferðamiðstöð - Vestfjarðarleið og Bílar og fólk, sem buðu lægst í sérleyfisakstur á Reykjanesi hafa bæði dregið tilboð sín til baka. Þetta staðfestir Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri. Tilboð Hópferðamiðstöðvarinnar hljóðaði upp á 470 milljónir króna og tilboð Bíla og fólks hljóðaði upp á 439 milljónir fyrir sérleyfin, sem ná meðal annars til aksturs flugrútunnar til Keflavíkur.
Ástæða þess að fyrirtækin drógu tilboðin til baka er sögð sú að þau hafi bæði gert reikniskekkju og í ljós hafi komið að tilboðin voru of lág. Gunnar segir að Vegagerðin hafi fallist á skýringar fyrirtækjanna og að nú verði farið í að skoða tilboð hinna fjögurra fyrirtækjanna sem buðu í sérleyfin. Ákvörðun verði tekin á næstu vikum.
Fyrirtækið Þingvallaleið bauð hæst í sérleyfin, eða 0 krónur. Fyrirtækið vill því ekki niðurgreiðslu eins og venjan er, en bauðst heldur ekki til að greiða með leyfinu.
Þetta kom fram á vefsíðu Morgunblaðsins, mbl.is.
Myndin tengist ekki fréttinni / VF-mynd: Úr safni