Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

  • Dósasel opnar móttökustöð við Hrannargötu 6
    Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, færði Ingu Jónu Björgvinsdóttur, forstöðukonu Dósasels, blóm í tilefni dagsins. VF-myndir: Páll Ketilsson
  • Dósasel opnar móttökustöð við Hrannargötu 6
    Ásmundur Friðriksson, formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, ásamt Þorsteini Víglundssyni félagsmálaráðherra, sem kom og skoðaði aðstöðuna.
Fimmtudagur 22. júní 2017 kl. 07:00

Dósasel opnar móttökustöð við Hrannargötu 6

Starfsstöð Dósasels var formlega opnuð í nýju húsnæði Þroskahjálpar á Suðurnesjum að Hrannargötu 6 í Keflavík sl. föstudag. Dósasel er verndaður vinnustaður sem rekinn er af Þroskahjálp en þar starfa að jafnaði um 10 fatlaðir starfsmenn allan ársins hring og taka á móti dósum til endurvinnslu.
Afköst Dósasels munu aukast með haustinu þegar önnur flokkunarlína verður sett upp við hlið núverandi línu og verða þá tvær flokkunarlínur í stað einnar í dag.
 
Þroskahjálp á Suðurnesjum keypti nýlega Hrannargötu 6 af Reykjanesbæ. Húsnæðið er um 1300 fermetrar en Dósasel nýtir um 400 fermetra af því plássi fyrir endurvinnslustöðina. Aðrir hlutar hússins eru í útleigu.
 
Í opnunarteiti sem haldið var síðasta föstudag var fjölmörgum fyrirtækjum, einstaklingum og stofnunum færðar þakkir fyrir stuðning við Þroskahjálp og verkefnið en margir hafa lagt félaginu lið með vinnuframlagi, gjöfum eða verulegum afslætti að aðföngum.
 
Dósasel höndlar með um 600.000 flöskur og dósir í hverjum mánuði. Það eru bæði drykkjarumbúðir sem fólk kemur með til endurvinnslu og fær greitt skilagjald fyrir og einnig dósir og flöskur sem gefnar eru til Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Þroskahjálp fær greidda ákveðna krónutölu fyrir hverja einingu sem fer í gegnum endurvinnslustöðina þeirra. Magnið er það mikið að um einn 40 stór vörugámur fer frá Dósaseli á hverjum virkum degi til Endurvinnslunnar í Reykjavík. Með nýjum búnaði sem settur verður upp fyrir haustið verða allar plastumbúðir tættar niður. Það mun minnka umfang umbúðanna og þannig fækka þeim gámum sem þarf að flytja frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur. Þar mun sparast umtalsvert fé í flutningskostnað. Sá peningur verður notaður til að bæta kjör þeirra sem vinna hjá Dósaseli, segir Ásmundur Friðriksson, formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, í samtali við Víkurfréttir.
 
 
Frá opnun Dósasels.

 
Bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ þakkaður stuðningurinn við Þroskahjálp á Suðurnesjum. Kjartan Már tekur við þakkarskjali frá Ásmundi formanni Þroskahjálpar.
 
 
Hrannargata 6 á Vatnsnesi í Keflavík.  VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024