Dópaður í bílveltu
Nokkuð hefur verið um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum en ekki mikið um slys tengdum þeim.
Í gærmorgun var bílvelta á Grindavíkurvegi þar sem tveir aðilar voru fluttir á bráðamótttöku Landspítalans í Fossvogi og sá þriðji á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ökumaður þeirrar bifreiðar játaði neyslu fíkniefna og í kringum bifreiðina fundu lögreglumenn talsvert magn af áhöldum til fíkniefnaneyslu.
Þriggja bíla árekstur varð í Reykjanesbæ í morgun. Engin slys urðu á fólki en nokkurt tjón var á farartækjunum.
Einnig varð bílvelta á Grindavíkurvegi í síðustu viku. Fjórir voru í þeirri bifreið og héldu bílbelti bifreiðarinnar, sem var á hvolfi, þeim föstum þegar lögreglu bar að. Ökumaðurinn og farþegarnir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.