Dómur yfir Ramsey staðfestur í Hæstarétti
Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms yfir Scott Mckenna Ramsay, 18 mánaða fangelsi, þar af 15 mánuði skilorðsbundið, fyrir að veita öðrum manni hnefahögg sem leiddi til bana hans á veitingastaðnum Traffic í Reykjanesbæ í nóvember 2004.
Ramsay var einnig dæmdur til að greiða foreldrum mannsins, sem hann sló, samtals 1560 þúsund íslenskar krónur og tæpar 65 þúsund danskar krónur í bætur. Einnig þarf hann að greiða sakarkostnað, 1,1 milljón króna.
Á vefsíðu Morgunblaðsins kemur fram að Hæstiréttur telji ekki að framkoma hins látna hafi gefið tilefni til árásarinnar sem var óvænt og virðist hann ekkert ráðrúm hafa haft til að verjast henni. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákærði hafi beitt sérlega hættulegri aðferð við atlöguna og ljóst sé að afleiðingar af hnefahöggi hans urðu mun alvarlegri en við mátti búast. Þannig hafi réttarmeinafræðingur borið fyrir héraðsdómi, en hún gerði krufningarskýrslu vegna hins látna, að við hverjar 2500 krufningar vegna áverka sem hljótist af líkamsárásum megi búast við einu slíku tilviki og í heildina miðað við aðra áverka sem hljótast af líkamsárásum þá sé þetta óskaplega sjaldgæft.
Hæstiréttur segir síðan, að ákærði hafi framið brotið í skammvinnri geðshræringu. Hann hafi frá upphafi játað brot sitt og verið samvinnufús. Gögn málsins beri með sér að brotið hefur verið honum þungbært og hann hafi gert það sem í hans valdi hafi staðið til að bæta fyrir það.
Af vef Morgunblaðsins, www.mbl.is