Dómsmálaráðherra jákvæður í garð flutnings Landhelgisgæslu til Suðurnesja
Dómsmálaráðherra er jákvæður gagnvart flutningi Landhelgisgæslunnar til Keflavíkurflugvallar. Þá kemur það einnig vel til skoðunar að flytja alla starfsemi Almannavarna ríkisins frá Skógarhlíð í Reykjavík til Ásbrúar.
Björgvin G. Sigurðsson 1. þingmaður Suðurkjördæmis spurði Ögmund Jónasson dómsmálaráðherra á Alþingi í gær hvort og hvenær stæði til að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar og hugsanlega allra almannavarna úr Skógarhlíðinni á Ásbrú í Reykjanesbæ.
„Ég skora á ráðherrann og brýni hann til framkvæmda í þessu máli. Það er búið að vinna að því í nokkur misseri að flytja Gæsluna suður eftir og nú er komið að efndum og framkvæmdum,“ sagði Björgvin á þingi í gær.
Svaraði Ögmundur því til að hann væri jákvæður gagnvart flutningi Landhelgisgæslunnar og málið væri í sérstöku ferli líkt og komið hefði fram í Suðurnesjayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á dögunum. Björgvin benti á að utanríkisráðherra hefði ítrekað lýst því yfir að Gæslunni væri best fyrir komið í sameiningu með Varnarmálstofnun staðsett á Miðnesheiðinni.
Þá spurði Björgvin Ögmund um hvort til greina kæmi að flytja alla starfsemi Almannavarna ríkisins frá Skógarhlíðinni þar sem erfitt væri á neyðarstundum að komast til og frá vegna umferðar og þrengsla og flytja alla þá starfsemi með Gæslunni til Suðurnesja.
„Það kemur vel til skoðunar að gera það þó engu sé hægt að lofa fyrirfram,“ sagði Ögmundur.
Björgvin fagnaði þessum ummælum Ögmundar og hvatti hann til að hraða flutningi Gæslunnar og skoðun á því að flytja alla starfsemi Almannavarna til Suðurnesja.