Delta með áætlunarflug milli Keflavíkur og JFK næsta sumar
Delta Air Lines hefur staðfest að beint sumarflug félagsins milli Keflavíkurflugvallar og Kennedyflugvallar í New York hefjist á ný 5. júní 2014. Til að byrja með verða fimm flug í viku á flugleiðinni, en frá 12. júní verður flogið daglega í samvinnu við Air France KLM sem er samstarfsaðili Delta. Notaðar verða Boeing 757-200 þotur sem hafa sæti fyrir 167 farþega.
„Flugfélagið Delta býður flugfarþegum frá Keflavík fjölbreyttara val á flugferðum til Bandaríkjanna yfir sumarmánuðina þegar flestir eru á faraldsfæti,“ segir Perry Cantarutti aðstoðarforstjóri Delta í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku. „Næsta sumar munu flugfarþegar okkar upplifa ýmsar nýjungar í þjónustu um borð í þotunni og jafnframt í hinni nýju og glæsilegu flugstöð Delta á Kennedyflugvelli.“
Vélar Delta á leið til Íslands fara í lofið klukkan 23:33 frá Kennedyflugvelli á New York-tíma og lenda á Keflavíkurflugvelli klukkan 9:10 að morgni á íslenskum tíma. Þær fara aftur frá Keflavík klukkan 10:50 að morgni og lenda í New York klukkan 12:34 á hádegi að staðartíma.
Á viðskiptafarrými eru 15 sérhönnuð lúxussæti sem breyta má í rúm vilji farþegar sofa á leiðinni. Boðið verður upp á fimm rétta veislumáltíð á viðskiptafarrými með sérvöldum víntegundum.
Á betra almennu farrými verður boðið uppá meira fótarými en á almennu farrými. Sætisbök á betra almennu farrými hallast vel aftur til að auka vellíðan farþega. Um borð í þotunum í Íslandsfluginu verður boðið upp á þráðlaust net fyrir alla flugfarþega.
Farþegar frá Íslandi koma í nýja, nútímalega og glæsilega flugstöð Delta á Kennedyflugvelli, sem ber heitið JFK Terminal 4 og kostaði um 164 milljarða króna. Terminal 4 er miðpunktur í endurbættri alþjóðlegri flugþjónustu Delta og er ein stærsta flugstöð Bandaríkjanna. Þar er fjöldi verslana og veitingastaða fyrir þá sem bíða eftir tengiflugi og fyrsta flokks aðstaða fyrir farþega á viðskiptafarrými.