Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Deilt um Hitaveitumál í bæjarráði Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 12. júlí 2007 kl. 10:43

Deilt um Hitaveitumál í bæjarráði Reykjanesbæjar

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun samning um að fá lán að upphæð kr. 4.755.604.927.- hjá Geysi Green Energy vegna kaupa bæjarins á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Var bæjarstjóra falið að undirrita samninginn fyrir hönd bæjarins.

Á fundinum var einnig samþykkt viljayfirlýsing um samstarf innan HS sem og kaupsamningur milli bæjarins og GGE á hlut í HS.

Öll þessi mál voru samþykkt með 3 atkvæðum meirihluta Sjálfstæðisflokks gegn tveimur atkvæðum minnihluta A-lista sem lagði fram harðorða bókun í málinu:

Guðbrandur Einarsson lagði fram eftirfarandi bókun minnihlutans:

Við greiðum að sjálfsögðu atkvæði gegn því að Reykjanesbær taki lán hjá Geysir Green Energy ehf. til þess að Reykjanesbær geti nýtt sér þann forkaupsrétt sem skapaðist við sölu ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja. Í því felst að verið er að framselja þennan hlut til Geysis og slíkt kemur alls ekki til greina af okkar hálfu.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins miðvikudaginn 11. júlí var sagt frá samkomulagi um með hvaða hætti Hitaveitu Suðurnesja yrði skipt milli Reykjanesbæjar, Geysis Green Energy, Hafnarfjarðarbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur.
Þetta samkomulag skýrir að sjálfsögðu hvers vegna sjálfstæðismenn velja að taka lán hjá Geysi Green Energy ehf. sem er fjárfestingarfélag en ekki fjármögnunarfyrirtæki. Það var aldrei ætlun þeirra að Reykjanesbær myndi eiga þetta hlutafé, heldur er augljóst að búið var að framselja þennan hlut til Geysis og gott betur en það.

Þá samþykkjum við ekki það samkomulag sem sjálfstæðismenn hafa undirgengist og nefnt er hér að ofan. Það að einkaaðilar komist yfir þriðjungshlut í Hitaveitu Suðurnesja, þegar ekki liggur fyrir nein áætlun um með hvaða hætti rekstri orkufyrirtækja verði háttað til framtíðar, er óásættanlegt að okkar mati.

Þessi vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli, eru hins vegar dæmigerð fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og eru í algjöru samræmi við það verklag sem þeir hafa viðhaft við stjórn sveitarfélagsins á umliðnum árum.

Ekkert samráð
Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur ekkert verið hafður með í ráðum í þessu stóra og mikilvæga máli og öll vitneskja hefur verið fengin úr fjölmiðlum eða frá aðilum ótengdum bæjarstjórn. Það hlýtur að vera hlutverk bæjarstjóra, sem ráðins starfsmanns bæjarstjórnar, að uppplýsa alla kjörna fulltrúa um stöðu mikilvægra mála er varða sveitarfélagið, svo ekki sé talað um jafnt mikilvægt mál og máefni Hitaveitu Suðurnesja eru. Þessi upplýsingaskylda hlýtur að ná til allra stjórnarmanna, en ekki bara til pólitískra samherja.

Fyrirfram ákveðið
Það virðist hafa verið ætlun sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar frá upphafi, að framselja forkaupsréttarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til Geysis Green Energy eins og nú hefur komið á daginn. Því til viðbótar ætla þeir að selja 5 % af hlut Reykjanesbæjar í Hitaveitunni og mun fá fyrir það á þriðja milljarð.
Hin stóru orð sjálfstæðismanna og þó sérstaklega bæjarstjóra, um að ekki yrði selt í Hitaveitu Suðurnesja eru því að engu orðin og hjóm eitt.

Eyðslu haldið áfram
Þessi sala Reykjanesbæjar á 5% hlut í Hitaveitu Suðurnesja veitir sjálfstæðismönnum hins vegar tækifæri til að halda áfram á þeirri braut umfram eyðslu sem þeir hafa verið á undanfarin ár. Eftir að hafa selt allar fasteignir sveitarfélagsins er nú komið að sölu á Hitaveitu Suðurnesja til þess að fjármagna eyðslu umfram tekjur. Það hlýtur að vekja athygli að það eru sömu aðilar viðriðnir kaup á fasteignum Reykjanesbæjar og nú koma til með að eignast þriðjungshlut í Hitaveitunni.

Svikin loforð
Sá kapall sem hefur verið lagður af bæjarstjóra og forráðamönnum Geysis Green Energy undanfarna mánuði er því að ganga upp. Tilgangurinn með staðsetningu Geysis hér á svæðinu var eingöngu sá að komast yfir ráðandi hlut í Hitveitunni og nú hefur það tekist með dyggum stuðningi sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Ekki er nú lengur talað um að Geysir eignist þau 15%, sem fólust í sölu á hlut ríkisins í Hitaveitunni, heldur eignast einkaaðilar nú þriðjungshlut í þeim miklu verðmætum sem Hitaveitan hefur yfir að ráða, s.s. í einokunarsölu á heitu og köldu vatni til íbúa hér á svæðinu ásamt þeim verðmætu nýtingarréttindum sem Hitaveitunni eru tryggð.

Tilraunadýr einkavæðingar
Það er því ljóst að Suðurnesjamenn verða notaðir sem tilraunadýr við einkavæðingu orkufyrirtækja, án þess að þeir hafi verið um það spurðir eða að gerð hafi verið tilraun til að ræða um með hvaða hætti þessi einkavæðing eigi að fara fram. Bæjarstjórnir sveitarfélaganna hér á Suðurnesjum hafa algjörlega brugðist í þessu máli og hafa tekið skammtímasjónarmið fram yfir framtíðarhagsmuni íbúanna. Með þessum gjörningi hefur verið gefið út skotleyfi á Hitaveitu Suðurnesja og íbúa á Suðurnesjum með ófyrirséðum afleiðingum

Guðbrandur Einarsson og Eysteinn Jónsson.

Bókun Sjálfstæðismanna má sjá í frétt frá því fyrr í morgun eða með því að smella hér
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024