Deilt um flugvélastæðin í Keflavík
Icelandair gæti þurft að víkja fyrir vélum Wow Air við Flugstöð Leifs Eiríkssonar næsta sumar ef áfrýjunarnefnd samkeppnismála tekur undir nýjan úrskurð Samkeppnisstofnunnar. Þangað til ríkir nokkur óvissa um flugáætlanir flugfélaganna yfir aðalferðamannatímann. Vefurinn Túristi.is hefur tekið saman frétt um málið.
Í vor sendu forsvarsmenn Wow Air erindi til Samkeppnisstofnunnar þar sem kvartað var yfir því hvernig Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, úthlutar flugfélögum afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Stendur styr um leyfi til að fljúga til Evrópu milli klukkan sjö og átta á morgnana og vestur um haf milli klukkan 16 og 17:30. Icelandair hefur um langt árabil nýtt þessa tíma til að tengja saman flug milli Evrópu og N-Ameríku.
Stjórnendur Wow Air ætla að einnig að taka upp þetta fyrirkomulag þegar félagið hefur flug til Bandaríkjanna í byrjun sumars og það er ástæðan fyrir því að félagið leitaði til samkeppnisyfirvalda. Í erindi þess segir: „...verði ekki orðið við kröfum Wow Air þá megi ljóst vera að fyrirhugaður samkeppnisrekstur í flugi á milli Íslands og Bandaríkjanna sé með öllu útilokaður." Þrátt fyrir þessa afdráttarlausu afstöðu þá tilkynntu forsvarsmenn Wow Air á miðvikudaginn í síðustu viku að félagið muni hefja flug til Boston í Bandaríkjunum næsta vor. Niðurstaða Samkeppnisstofnunnar lá svo fyrir tveimur dögum síðar og þar er farið fram á við Isavia að tryggja Wow Air tvo afgreiðslutíma við flugstöðina að morgni og seinnipartinn næsta sumar.
Óvissa með flugtíma
Nokkrum klukkutímum eftir að úrskurður Samkeppnisstofnunnar var birtur þá gáfu forsvarsmenn Isavia það út að þeir hyggist áfrýja honum. Í tilkynningu félagsins segir að úthlutunin sé framkvæmd af óháðum alþjóðlegum aðila og telur Isavia óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krefst.
Í ákvörðunarorðum eftirlitsins segir hins vegar að fyrirkomulag þessa aðila við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Isavia er því ætlað að tryggja Wow Air afgreiðslutíma til flugs til Bandaríkjanna seinnipart dags næsta sumar. Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, staðfestir við Túrista að nú sé unnið að því að útbúa áfrýjunina.
Samkvæmt samkeppnislögum skal úrskurður áfrýjunarnefndar liggja fyrir innan sex vikna frá áfrýjun. Áfrýjun frestar hins vegar ekki gildistöku ákvarðana Samkeppniseftirlitsins samkvæmt því sem segir á heimasíðu eftirlitsins. Stjórnendur Wow Air gætu því líklega farið fram á að fá þá afgreiðslutíma sem Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að þeir eigi rétt á. Fallist áfrýjunarnefndin hins vegar á kröfur Isavia þá yrðu tímunum hugsanlega ráðstafað á annan hátt. En afgreiðslutímum fyrir næsta sumar var úthlutað í síðustu viku en þeir verða fyrst gerðir opinberir um miðjan nóvember.
Hver sem niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar verður er ljóst að flugáætlun Wow Air og Icelandair næsta sumar er í lausu lofti að nokkru leyti og líklega gerir það félögunum erfiðara um vik að selja sæti í flug þegar endanlegir ferðatímar liggja ekki fyrir.