Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Deilt á meirihlutann í Sandgerði
Fimmtudagur 22. desember 2005 kl. 09:59

Deilt á meirihlutann í Sandgerði

Ólafur Þór Ólafsson, fulltrúi Þ-lista í bæjarstjórn Sandgerðis, gagnrýndi óljóst skipurit bæjarins varðandi tómstundanmál á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Sagði Ólafur í bókun að ástandið eins og það er í dag skapaði óvissu og óánægju meðal starfsmanna og íbúa. Vísaði hann m.a. í fundargerð tómstundaráðs þar sem starfsmaður Skýjaborgar minntist á óþægindi vegna upplýsingaskorts um fjárhag félagsmiðstöðvarinnar.

Ólafur sagði í bókuninni að ástandið kæmi ekki mikið á óvart þar sem staða Skýjaborgar væri óljós í stjórnsýslunni og bæjarstjóri gegndi forstöðumennsku fyrir félagsmiðstöðina.

Klykkti Ólafur út með því að segja að skynsamlegast væri að bíða með endurskoðun á þessum málum þar til eftir bæjarstjórnarkosningar í vor svo nýr meirihluti hafi óbundnar hendur við að greiða úr „þeirri stjórnskipulegu óreiðu sem núverandi meirhluti K-lista og D-lista hafa komið á á þessu kjörtímabili,“ eins og hann orðaði það.

Meirihluti bæjarstjórnar áskilur sér rétt til að svara aðfinnslum Ólafs með bókun á næsta fundi bæjarstjórnar, en þess má geta að á sama bæjarastjórnarfundi var lagt til að félagsmiðstöðin Skýjaborgir yrði flutt úr núverandi húsnæði í vallarhúsi Knattspyrnufélagsins Reynis í varanlegt rými að Skólavegi 1.

VF-mynd/Þorgils: Varðan í Sandgerði. Þangað verða bæjarskrifstofurnar fluttar innan skamms
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024