Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 15:05

DAVÍÐ, ROSI OG ÓLI LÆKUR Á SANDGERÐISDÖGUM

Hátíðin Sandgerðisdagar 1999 var sett með mikilli viðhöfn þegar Davíð Oddsson forsætisráðherra afhjúpaði uppstoppaðan rostung, „Rosa rostung”. Í ræðu forseta bæjarstjórnar Sandgerðis, Óskars Gunnarssonar, kom fram að rostungurinn væri fyrirmyndin að bæjarmerki Sandgerðis og í samræmi við sögulegt tákn bæjarfélagsins. Fyrr á öldum hét allur Reykjanesskaginn Rosmhvalaneshreppur og nesið hét Rostmhvalanes, en rosmhvalur merkir rostungur. Bæjarmerkið var formlega tekið í notkun á 100 ára afmæli Miðneshrepps, árið 1986 og það var Auglýsingastofa Kristínar Þorkelsdóttur í Reykjavík sem hannaði það. Rostungurinn var veiddur í Sisimut í Grænlandi og er gjöf grænlensku þjóðarinnar til Sandgerðisbæjar. Dýrið var þriggja og hálfs árs og 850 kg. þegar það var veitt. Svo skemmtilega vill til að rostungurinn er einnig í bæjarmerki Sisimut. Ólafur „lækur” Gunnlaugsson var kallaður uppá svið á hátíðinni um helgina og færðar gjafir. „Ætli það hafi ekki tvennt komið til að ég var heiðraður á þessum degi. Annars vegar er ég einn af upphafsmönnum Bioice verkefnisins og hef verið í verkefnastjórn þess frá upphafi. Ég varð líka sextugur í sumar og var færð blómakarfa, bók og fleiri góðar gjafir sem ég var auðvitað mjög ánægður með,” sagði Óafur Gunnlaugsson frá Lækjarmótum í Sandgerði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024