Dauðsfallið rakið til hjartastopps
Dauðsfall þrjátíu og þriggja ára manns, sem lést þegar til átaka kom milli hans og lögreglunnar í Keflavík á fimmtudag, er rakið til skyndilegs hjartastopps.
Þetta er niðurstaða krufningar að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns hjá lögregluembættinu í Reykjavík, sem fer með rannsókn málsins. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hörður segir ekkert benda til þess að maðurinn hafi látist af völdum áverka eða ofbeldis af hálfu lögreglunnar í Keflavík. Nokkur tími gæti liðið þar til læknisfræðileg útskýring fæst á því hvernig á því stendur að maður á besta aldrei lætur lífið svo skyndilega vegna hjartastopps.
Til átakanna kom milli mannsins og lögreglunnar við heimili hans. Samkvæmt lýsingu lögreglu var hann æstur, árásargjarn og óljós í tali. Hann mun hafa haft í hótunum við lögreglumennina og ítrekað ráðist að þeim. Þegar tekist hafði að færa manninn í handjárn, missti hann meðvitund og dó skömmu síðar.
Loftmynd: Oddgeir Karlsson