Datt af baki og lenti á vatnskari
Það óhapp átti sér stað í Reykjanesbæ, að stúlka féll af baki hesti sínum og hlaut nokkur meiðsl. Stúlkan var með vinkonu sinni í útreiðatúr á Mánagrund, þegar hestur hennar rauk allt í einu á fulla ferð. Hann lenti utan í hliðstólpa á sprettinum og við það féll stúlkan af baki.
Stúlkan kastaðist þrjá til fjóra metra og stöðvaðist á kari sem notað er undir vatn fyrir hross. Hún var með reiðhjálm á höfði og brotnaði hann við atvikið. Stúlkan var flutt með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Hún fékk að fara heim að því loknu.