Danskt varðskip kom við í Keflavík
Danska strandgæsluskipið Ejnar Mikkelsen, úr flota danska hersins, kom á ytri höfnina í Keflavík í gær til að hafa áhafnaskipti.
Það vakti talsverða athygli þegar skipið sigldi skammt frá landi og hleri opnaðist í skut skipsins og út rann bátur. Það var Naja, leitar- og björgunarbátur, sem var sjósettur á þennan hátt. Hann sigldi svo með hraði í höfn í Keflavík þar sem einn maður fór í land og annar beið á hafnarbakkanum og fór með bátnum til baka um borð í Ejnar Mikkelsen. Naja sigldi þá á fullri ferð í skut Ejnars og fór þar inn jafn hratt og hann hafði komið út skömmu áður.
Ejnar Mikkelsen er strandgæsluskip sem sinnir aðallega verkefnum við Grænland. Skipið var sjósett í nóvember 2007 og er systurskip Knud Rasmussen, sem einnig sinnir strandgæslu við Grænlandsstrendur. Skipin eru sérstaklega styrkt til að sigla í ís.
Naja, sem kom í land í Keflavík, er hins vegar sænsk hönnun á leitar- og björgunarbátum. Naja er notuð við leit á grynnra vatni og í þröngum fjörðum og við aðstæður þar sem Ejnar Mikkelsen kemst ekki.
Danska strandgæsluskipið Ejnar Mikkelsen, úr flota danska hersins, kom á ytri höfnina í Keflavík í gær til að hafa áhafnaskipti.