Danski sjávarútvegsráðherrann á ferð um Suðurnes
Danski sjávarútvegsráðherrann Hans Christian Schmidt var ásamt fylgdarliði á ferð um Suðurnesin á föstudaginn. Með í för var Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra og heimsóttu þeir fyrirtæki og stofnanir. Fóru þeir m.a. í fiskirannsóknarstöðina á Stað og skoðuðu aðstæður þar. Einnig var farið í fyrirtæki á svæðinu og fengu þeir alls staðar góðar móttökur.
Í Þorbirni-Fiskanesi var þeim boðið til hádegisverðar og fengu þeir að bragða á framleiðsluvörum fyrirtækisins. Dagurinn endaði svo í Saltfisksetri Íslands þar sem Óskar Sævarsson forstöðumaður safnsins og Hörður Guðbrandsson forseti bæjarstórnar fylgdu honum í gegnum safnið. Hans Christian spurði margs um verkun saltfisks fyrr á öldum og fékk greinargóð svör frá forstöðumanni safnsins. Að lokum þáðu allir veitingar og færði Hans Christian þeim Óskari og Herði gjafir sem þakklætisvott fyrir góðar móttökur.