Daníel og Jón Ragnar stýra Gerðaskóla
Gengið hefur verið frá ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla. Nýráðinn skólastjóri er Daníel Arason og nýráðinn aðstoðarskólastjóri er Jón Ragnar Ástþórsson. Þetta kemur fram á vef skólans.
Daníel er fæddur og uppalinn í Neskaupstað þar sem hann bjó til tvítugs. Þá tóku við hefðbundin námsár í Reykjavík og lauk hann tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995. Einnig hefur Daníel MA-gráðu í mennta- og menningarstjórnun ásamt viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum á Bifröst ásamt BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Daníel starfaði sem kennari í tónlistarskólum og grunnskólum á Austurlandi, meðal annars á Djúpavogi og Eskifirði, til ársins 2012 en þá tók hann við starfi skólastjóra Tónlistarskólans á Egilsstöðum. Árið 2019 hóf hann störf hjá Sveitarfélaginu Vogum og gegndi þar stöðu forstöðumanns stjórnsýslu. Daníel hefur víðtæka reynslu af kennslu og stjórnun, auk menntunar og starfsreynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu.
Jón Ragnar þarf vart að kynna fyrir Garðbúum en hann er fæddur og uppalinn Garðmaður. Jón hefur búið lengst af í Garðinum en bjó þó til skamms tíma í Keflavík og síðar í Danmörku þar sem hann stundaði nám. Jón hefur lokið BSc og MSc í markaðsfræði og stjórnun frá Copenhagen Business School ásamt því að hafa viðbótardiplóma í menntun framhaldsskólakennara frá Háskóla Íslands. Jón hefur undanfarin ár verið kennari í Gerðaskóla en áður sinnti hann stjórnunarstöðum hjá Skólamat, sem rekstrarstjóri og sem innkaupastjóri hjá Samkaupum. Jón hefur einnig á undanförnum árum starfað sem barna- og unglingaþjálfari hjá Reyni/Víði og Keflavík og hefur setið í stjórn Knattspyrnufélagsins Víðis, meðal annars sem formaður.