Dalai Lama hinn hressasti við komuna til Keflavíkur
Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, sem verið hefur í útlegð í hálfa öld kom til Íslands rétt fyrir klukkan níu í kvöld frá Kaupmannahöfn. Lama var hinn hressasti við komuna í Keflavík og heilsaði viðstöddum með virktum.
Nokkuð hefur verið ritað um heimsókn leiðtogans hér á landi. Steingrímur Sigfússon, fjármálaráðherra sagði að það væri hverjum ráðherra í sjálfvald sett hvort þeir kysu að hitta Lama. Ekki er vitað að hann sé að hitta neinn af ráðamönnum þjóðarinnar í heimsókninni. Hann mun ræða við fréttamenn á blaðamannafundi á morgun.
Rjómablíða var í Keflavík í kvöld og Lama og fylgdarlið naut hennar. Lama fór í fremsta bíl í bílaröð sem fylgdi honum til borgarinnar. Karlinn opnaði gluggann í hitanum og brosti sínu blíðasta þegar Mercedes jeppabifreið þaut af stað með hann til Reykjavíkur.
Víkurfréttamyndir/Páll Ketilsson.