Dagskrá Ljósanætur að taka á sig mynd
Undirbúningur Ljósanætur í Reykjanesbæ er nú í hámarki og dagskráin smám saman að taka á sig endanlega mynd. Ljósanæturhátíðin mun standa yfir frá miðvikudeginum 31. ágúst til sunnudagsins 4. september næstkomandi.
Sífellt stærri hluti viðburða er í höndum íbúa og gesta. Til að koma öllum viðburðunum inn í dagskrá þurfa þeir sem standa fyrir þeim að skrá þá sjálfir inn á vef Ljósanætur, www.ljosanott.is. Berist sú skráning fyrir 20. ágúst fer viðburðurinn einnig inn í prentaða dagskrá Víkurfrétta sem borin verður í öll hús í Reykjanesbæ og liggur frammi á öllum helstu stöðum á Suðurnesjum. Allar upplýsingar um hátíðina er að finna á vef Ljósanætur.