Dagdvölum í Reykjanesbæ lokað
Starfsemi dagdvalanna á Nesvöllum og í Selinu í Reykjanesbæ lokar frá deginum í dag, 24. mars og sett hefur verið upp þjónustuáætlun fyrir þá sem fá þjónustuna heima á meðan annað hvort í formi símavitjana eða heimavitjana.
Þetta kemur fram í fundargerð Neyðarstjórnar Reykjanesbæjar frá mánudeginum 23. Mars. Þar kemur fram að áhersla verði lögð á að samþætta þjónustuna við heimahjúkrun og heimaþjónustu þannig að hægt sé að veita nauðsynlega þjónustu með aðkomu færri. Jafnframt verður boðið upp á heimsendingu matar fyrir þá sem þess óska.
Viðbragðsteymi félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um þjónustu við viðkvæma hópa er að hefja söfnun upplýsinga frá öllum sveitarfélögum/félagsþjónustusvæðum um áskoranir og hugsanleg þjónusturof eða önnur vandamál sem upp kunna að koma við framkvæmd félagsþjónustunnar. Viðbragðsteymið mun safna þessum upplýsingum vikulega og mun fyrsta samantektin verða lögð fram í stöðuskýrslu fyrir ríkisstjórn á morgun.
Í fundargerð Neyðarstjórnar kemur einnig fram að 27 manns á Suðurnesjum hafi skráð sig í bakvarðasveit velferðarþjónustu en fólk hefur verið hvatt til að skrá sig. Óskað er eftir liðsinni úr hópi almennra starfsmanna auk félagsliða, þroskaþjálfa, félagsráðgjafa, sjúkraliða, sálfræðinga og hjúkrunarfræðinga sem eru reiðubúin að koma tímabundið til starfa í velferðarþjónustunni með skömmum fyrirvara. Upplýsingar sem skráðar eru verða geymdar í gagnagrunni sem hýstur er á gagnasvæði félagsmálaráðuneytisins og munu verða nýttar í þeim tilgangi að kalla fólk til tímabundinna starfa í velferðarþjónustu vegna COVID-19 veirunnar.