Dagdvölinni í Selinu færðar góðar gjafir
Félag Alzheimersjúklinga í Reykjanesbæ færði Dagdvölinni í Selinu fjögur sjúkrarúm. Með tilkomu rúmana í Selið breytist aðstaða bæði dvalargesta og starfsfólks til muna að sögn Ingu Lóu Guðmundsdóttur, forstöðumanns dagvistar aldraða í Reykjanesbæ.
Í Selinu eru 11 manns sem nýta sér þjónustuna og eru þeir allir með Alzheimersjúkdóminn.
Grunnurinn að sjóðnum, sem sótt var í til að kaupa sjúkrarúm, kemur frá Samkaupum sem færði ýmsum félagasamtökum fjárstyrki í tilefni 60 ára afmælis síns og var Félagi Alzheimersjúklinga í Reykjanesbæ gefin rausnarleg fjárupphæð kr. 500.000.
Að sögn Ingibjargar Magnúsdóttir, frá FAAS Reykjanesbæ er starfsemi Alzheimerfélagsins nánast eingöngu byggt á upplýsinga- og fræðslufundum, hafa þeir verið félaginu að kostnaðarlausu að mestu. Á síðasta ári lét félagið síðan einnig gera jólakort með mynd sem Ásta Árnadóttir, myndlistakona, gaf til eftirprentunnar. Rann ágóðinn af þeirri sölu í sjóð þennann.
„Þar sem Alzheimersjúklingar eru nú komnir með aðstöðu í Selinu fannst okkur vel við hæfi að skjólstæðingar þess fái að njóta ágóðans og því eru þeim færð þessi fjögur sjúkrarúm. Það er von okkar að þau megi nýtast Dagdvölinni og vistmönnum þar sem allra best í framtíðinni,“ sagði Ingibjörg Magnúsdóttir F.H Félags aðstandenda Alzheimersjúklinga í Reykjanesbæ.
Mynd: Félag Alzheimersjúklinga í Reykjanesbæ færði Dagdvölinni i Selinu fjögur sjúkrarúm. Á myndinni eru Ingibjörg Magnúsdóttir frá FAAR, Soffía Aðalsteinsdóttir frá FAAR, Inga Lóa Guðmundsdóttir, forstöðumaður Dagdvalar, Björk Erlendsdóttir, deildarstjóri Selsins og Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar.
Víkurfréttmynd:IngaSæm