Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 31. ágúst 2000 kl. 17:09

Dagbók Írisar Eddu og Eydísar frá ÓL 2000

Sundkonurnar knáu þær Íris Edda Heimisdóttir og Eydís Konráðsdóttir, eru nú staddar í Ástralíu en þær munu keppa á Ólympíuleikunum sem hefjast í Sydney eftir tvær vikur. Þær sendu VF skemmtilegt bréf þar sem þær segja frá lífinu í Ástralíu og á næstu dögum munum við birta pistlana þeirra. Komiði sæl öll héðan frá Ástralíu. Í dag er þriðjudagur 28. ágúst - og nú er liðið fram yfir hádegi. Veðrið hér er milt, svolítið morgunkul (6-8°C) en hlýnar um leið og sólin kemur upp á norðurhimininn. Ferðalagið hófst með brottför frá ÍSÍ kl. 05:30 á föstudagsmorgni 25. ágúst. Við flugum til London fórum í sundlaug í Feltham, þar sem tekin var létt æfing. En mest þvælst á Heathrow flugvellinum. Seinkun varð á fluginu en okkar fólk tók léttar teygjur og spilaði hvetjandi tónlist til að skemmta sér og öðrum. Flugið tók 12:45 klst til Singapore + 7 klst frá Singapore til Sydney. Vegna seinkunar í London gafst ekki tími til að rétta úr sér og teygja, heldur varð að þjóta beint milli hliða og um borð. Flugið frá London varð þannig rúmar 20 klst., án hvíldar. Tímastillingin klikkaði hjá okkur - og líka hjá Singapore-flugfélaginu á leið til Sydney þar sem klukkunni var breytt þá um nóttina. Við héldum að við værum klukkutíma á undan áætlun, sem var leiðrétt þá strax. Við erum nú með 11 stunda mun frá Íslandi til Sydney, ekki 10 klst og mikilvægt að leiðrétta það við fjölmiðlana, alveg sérstaklega vegna útsendinga RÚV. Fengum mjög góða leiðsögn í gegn um vegabréfaskoðun og skráningu. Líney aðstoðarfararstjóri og undanfari frá ÍSÍ, var fyrst í gegn daginn áður og við vorum með fyrsta íþróttahópinn inn í landið. Eydís tók á móti okkur með sína ullarvettlinga í morgunkuldanum þannig að hópurinn var allur saman á ný. Jo (Jóhannes) Sigurdson tók á móti okkur sem starfsmaður áströlsku ólympíufjölskyldunnar. Hann á að verða okkur til aðstoðar ef á þarf að halda. Það er ágætt að vita af Jo hér í nágrenninu ef á þarf að halda, sem vonandi verður í lágmarki. Við ókum beint til Wollongong og komum snemma á hótelið, þurftum þess vegna að fara út í bæ og rölta um áður en við komumst inn. Borðuðum morgunverð í sólskini, á útveitingastað, náðum í bíl til að flytja hópinn og komum okkur síðan fyrir upp úr hádeginu. Hlaðborð í hádeginu, á almennum veitingastað, og maturinn ekki með neinum „mötuneytisstíl“, steikur og eftirréttir. Allt hefur gengið vel fram að þessu. Við erum hér í góðu yfirlæti og njótum þess að vera meðal þeirra fyrstu sem koma á svæðið. Þrír aðrir hópar æfa í sundlauginni við Háskólann í Wollongong. Íbúðirnar eru fínar - mjög rúmt á flestum, strákarnir eru fjórir saman um íbúð sem er tvö svefnherbergi með stofu þar sem er svefnsófi. Þeir skiptast á og klára þetta prýðilega. Morgunmatur er framborinn í íbúðirnar en við förum á veitingastað í næstu götu í hádegismat og kvöldmat. Þar er mjög gott hlaðborð báðar máltíðir og engin hætta á að verða leiður á matnum. Fólkið hefur tekið frá handa okkur fast langborð og aðrir gestir veita hópnum mikla athygli. Fastar æfingar verða klukkan 8:30 - 11:00 á morgnanna plús þrek ca. annan hvern dag og síðan verða síðdegisæfingar með reglubundnum hætti. Meðan mesta þreytan er að ganga yfir verða ekki fullar æfingar. Á miðvikudag verður ekki síðdegisæfing og heldur ekki á fimmtudag, þá á Örn afmæli og hópurinn fer í bíó um kvöldið. Á föstudaginn förum við til borgarstjórans í móttöku í hádeginu. Hann sendi okkur mjög formlegt og vinsamlegt bréf með smágjöfum og boðskortum til allra. Á laugardaginn stendur til að fara til Canberra í heimsókn í Íþróttamiðstöðina (Australian Institute of Sports) og þá verður ekki æft síðdegis. Sunnudagurinn er frídagur fyrir alla sundmennina og eitthvað verður gert sameiginlega. Vonandi verður síðan mesta þreytan gengin yfir þegar næsta vika byrjar og æfingar verða lengri og strangari. Ennþá hafa menn ekki lent í neinum alvarlegum vandræðum með svefn og þreytan er minni en búast mátti við ekki síst þar sem hópurinn lenti í nokkurri seinkun í London. Við erum með minibus á leigu og ökum á vinstri vegarhelmingi að hætti innfæddra. Við eigum í talsverðu basli með að líta rétt í kring um okkur í umferðinni. Flest snýr öfugt í raun og veru og má það heita aldeilis furðuleg tilfinning að aka til norðurs um hábjartan daginn og hafa þá sólina í andlitið. Guði sé lof fyrir það að hún kemur þó líka upp í austrinu hér eins og við erum vön -en svo fer hún eitthvað skrítinn hring!!!! Að sjá sólina fara frá hægri til vinstri er ekki alveg hægt að sættast við á stundinni. Brian landsliðsþjálfari sá um undirbúninginn hér í Wollongong og hefur það staðist mjög vel. Einnig hefur hann sett upp æfingaplanið sem farið er eftir og vinna þau Sigurlín og Ragnar að því með honum að útfæra lokaundirbúning allra sundmannanna og fylgja öllum hópnum eftir sameiginlega. Hópurinn kemur fram hér sem landslið Íslands í sundi og þannig taka þau ekki þátt í Ólympíuleikunum sem einstaklingar heldur sem fulltrúar Íslands undir fána þjóðarinnar og keppendur undir merkjum ÍSÍ. Agareglur ÍSÍ gilda fyrir hópinn okkar eftir því sem okkar skipulag er ekki strangara en ÍSÍ gefur dagskipanir þegar við flytjum inn í þorpinu í Sydney þann 11.september. Útbúnaðurinn frá hendi ÍSÍ og styrktaraðila er alveg frábær og fatnaður frá Nike virkilega til að þakka fyrir. Við ætlum að fara eftir nokkuð ákveðnum reglum um klæðnað þannig að við höfum stíl yfir hópnum þar sem við erum á ferð á almannafæri. Sérstakir atburðir á Ólympíusvæðinu krefjast formlegs fatnaðar og svo framvegis. Vonandi styrkir það allan hópinn í að ná saman eins og ætlast er til þannig geta allir orðið sterkari. Við eigum von á frjálsíþróttafólkinu um næstu helgi og þá verður töluð ennþá meiri íslenska á svæðinu. GSM símarnir komu með hjá flestum en verða að vera lokaðir lengst af, bæði vegna tímamunar og vegna æfinganna. Sundmenn opna símana milli klukkan 20-21:15 að íslenskum tíma (sem sagt áður en farið er á æfingar á morgnanna kl. 07:00-08:15), fyrir utan tímann sem þeir eiga frí síðdegis en þá er nótt heima á Íslandi. Tímamunurinn er 11 klukkustundir og er rétt að leiðrétta það að klukkunni var breytt daginn sem við komum og munurinn jókst í 11 stundir öfugt við það sem okkur hafði áður verið sagt. Krakkarnir hafa fengið aðgang að netinu og E-mail og nota sín venjulegu netföng ekki geta samt allir setið við alla daga þannig að svörin berast etv. ekki alveg án tafa. Visir.is er kominn í samband og munum við standa fyrir reglubundinni fréttamiðlun framvegis. Netfang hópsins er [email protected]. Brian og Benedikt hafa GSM síma sem eru opnir (stundum) - 898-4210 BS/898-3447BM - einnig er unnt að ná í Benedikt í síma - 00 - 61 (Landsnúmer Ástral.) - (0)2-42246510 - Ragnar og Sigurlín eru einnig með sína síma - í neyðartilvikum. Ríkarður fór í viðtal við Illawarra Mercury - sem er staðarblað hér í Wollongong. Blaðið birti í gær frábærlega fína mynd af Hjalta og Ríkarði - ásamt viðtali á blaðsíðu 5 í aðalblaðinu. Wollongong er 185.000 manna bær (með útbæjum) og er í mikilli uppbyggingu. Hingað ná Ólympíuleikarnir örlítið að hafa jákvæð áhrif. Íslensku sundmennirnir eru þess vegna ekki síst álitnir jákvæðir boðberar stóratburða fyrir bæinn þar sem allir Ástralir telja nú dagana niður þar til leikarnir hefjast. Vegfarendur og gestir á veitingahúsinu og í háskólasundlauginni gefa sig að okkar fólki með vingjarnlegum athugasemdum og hvatningu. Þetta kemur sannarlega skemmtilega á óvart og virkar vel á alla. Eiginhandaáritanir eru farnar að verða eftrisóttar og pinmerki ÍSÍ vekja jákvæð viðbrögð. Sund er mikil þjóðaríþrótt hér í landi og margir afreksmenn í vatninu skreyta síður blaða og áberandi veggmyndir. Hér eru allir vel meðvitaðir um að það er fyrir löngu uppselt á sundkeppnina og ferðamenn sem hingað koma þurfa að borga mikla peninga fyrir gistingu og ferðalag. Ólympíunefndin (IOC) hefur sett strangari skilmála en áður um fjölda aðstoðarmanna sem hafa aðgang að leikunum og einnig eru miklar takmarkanir á heimsóknum gesta í Ólympíuþorpið og strangar öryggisreglur. Látum heyra frá okkur nánar á hverjum degi --- ef tæknin svíkur ekki (visir.is). Við sendum öllum bestu kveðjur. Áfram Ísland!!!!!!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024