Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dagbjörg gaf björgunarbúnað fyrir 700 þúsund krónur
Miðvikudagur 29. október 2008 kl. 09:57

Dagbjörg gaf björgunarbúnað fyrir 700 þúsund krónur


Björgunarsveitin Suðurnes í Reykjanesbæ á öfluga stuðningssveit sem styður árlega myndarlega við bakið á björgunarsveitinni. Kvennasveitin Dagbjörg í Reykjanesbæ rekur kraftmikið starf m.a. til að afla fjár til kaupa á björgunarbúnaði. Framundan er stór fjáröflunarhelgi hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu þar sem Neyðarkallinn verður boðinn til sölu. Björgunarsveitin Suðurnes og Kvennasveitin Dagbjörg verða með stærstu sölustaði sína við Samkaup í Njarðvík og Bónus á Fitjum. Þar verður björgunarbúnaður til sýnis og gestum boðið upp á kaffi og kleinur. Unglingasveitin Klettur aðstoðar einnig við söluna.


Kvennasveitin Dagbjörg afhenti í vikunni björgunarsveitinni ýmsan björgunarbúnað að andvirði um 700 þúsund krónur. Þar á meðal má nefna fjóra Viking flotbúninga af nýjustu gerð ásamt hjálmum. Einnig fjóra blóðþrýstingsmæla, fjóra súrefnismettunarmæla og fjórar hlustunarpípur.


Björgunarsveitirnar í landinu hafa áhyggur af því að efnahagsástandið komi niður á fjáröflun sveitanna. Það er því ástæða til að hvetja Suðurnesjamenn til að taka vel á móti björgunarsveitarfólkinu og leggja því lið með því að kaupa Neyðarkallinn. Hann verður seldur á 1000 krónur og rennur andvirðið til endurnýjunar á björgunarbúnaði. Einnig verður stór Neyðarkall til sölu ætlaður fyrirtækjum eða öðrum stærri styrktaraðilum. Lágmarksverð fyrir stóra Neyðarkallinn er 35.000 krónur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Mynd: Frá afhendingu gjafa frá Kvennasveitinni Dagbjörgu nú í vikunni. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson